Þetta má lesa út úr nýjum tölum Seðlabankans um eignir verðbréfasjóða, sem birtust í morgun, en þær hafa bólgnað út á undanförnum mánuðum og misserum samhliða auknu innflæði, sem hefur einkum verið drifið áfram af fjárfestingum almennings, og miklum verðhækkunum á gengi hlutabréfa í Kauphöllinni.
Hreint innflæði í blandaða sjóði jókst einnig í síðasta mánuði, eða um samtals 556 milljónir króna. Nær samfellt innflæði hefur verið í bæði hlutabréfasjóði og blandaða sjóði í að verða næstum tvö ár og á árinu 2021 liðlega fjórfaldaðist það frá fyrra ári. Samanlagðar fjárfestingar í slíka sjóði voru um 58 milljarðar á liðnu ári.
Áframhald á þessari þróun á fyrsta mánuði ársins kom á sama tíma og Úrvalsvísitalan lækkaði um tæplega fimm prósent, mesta lækkun hennar á einum mánuði um langt skeið.
Miklar sveiflur einkenndu verðbréfamarkaði í byrjun ársins sem mátti einkum rekja til erlendra áhrifaþátta – væntingar um vaxtahækkanir vestanhafs og vaxandi áhyggjur af stríðsátökum í Úkraínu – en fjárfestar hér á landi héldu einnig að sér höndum vegna áforma ríkissjóðs um halda áfram sölu á stóru hlut í Íslandsbanka á komandi vikum.
Hlutabréf hafa haldið áfram að lækka í verði eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í síðustu viku og hefur Úrvalsvísitalan nú fallið um tæplega 10 prósent frá áramótum.
Þrátt fyrir aukið innflæði í hlutabréfasjóði í janúar þá minnkuðu eignir sjóðanna um sex milljarða króna í þeim mánuði, sem má rekja til verðfalls í Kauphöllinni, og nema nú samtals um 155,5 milljörðum króna. Frá því í apríl árið 2020 hafa eignir hlutabréfasjóðanna engu að síður vaxið um liðlega 100 milljarða króna, sem eykur um leið fjárfestingagetu sjóðanna sem því nemur. Eignir blandaðra sjóða hafa yfir sama tímabil stækkað um næstum 180 prósent og nema í dag um 80 milljörðum.
Kaup almennings á hlutdeildarskírteinum í slíkum sjóðum hefur aukist talsvert að undanförnu og nema eignir heimila í hlutabréfasjóðum 53,5 milljörðum króna borið saman við tæplega 30 milljarða í árslok 2020. Almenningur fer því með um 35 prósent af heildareignum hlutabréfasjóðanna.
Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði þar sem fjárfestar hafa meðal annars verið færa sig úr áhættulitlum eignum, eins og ríkisskuldabréfum og innlánsreikningum, yfir í hlutabréf.
Á síðasta ári jukust hlutabréfaviðskipti í Kauphöllinni um 75 prósent. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga nam rúmlega 2.500 milljörðum króna í árslok 2021 og hækkaði það um 63 prósent á síðasta ári.