Hún vill alvöru og afgerandi efnahagsaðgerðir af hálfu Íslands og segir engan mélkisuhátt duga til. „Klúðrið" árið 2014 megi ekki endurtaka sig. Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata sem á sæti á Natóþingi segir stöðuna í Úkraínu mikið áhyggjuefni sem grafi undan friði og alþjóðalögum.
Utanríkismálanefnd hélt fund vegna ástandsins í Úkraínu í morgun þar sem þverpólitísk sátt er um að fordæma aðgerðir Rússa gagnvart Úkraínu og að Íslendingar styðji þær refsiaðgerðir sem bandalagsþjóðir hafa samþykkt gegn Rússum. Aukafundur hefur verið boðaður nú klukkan fimm þar sem utanríkisráðherra mun koma fyrir nefndina í gegnum fjarfundarbúnað.
Sendiherrar Evrópusambandsins hafa enn fremur komist að niðurstöðu um frekari refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna hernaðaraðgerða þeirra í Úkraínu. Búist er við því að þær verði samþykktar og kynntar síðar í dag. Þorgerður leggur áherslu á að Íslendingar fylgi stefnu Evrópusambandsins í málinu.
Samstaða gegn yfirgangi Pútíns mikilvæg
Andrés Ingi segir mikilvægt að ná alþjóðlegri samstöðu gegn því sem hann kallar yfirgang Vladimirs Pútín, Rússlandsforseta, nú þegar Rússar hafa hafið innreið sína yfir landamæri Úkraínu. Fregnir frá Úkraínu herma að stjórnarherinn í landinu sé reiðubúinn til að verja landið og að til blóðugra átaka geti komið.
„Fyrstu viðbrögð vestrænna þjóða hafa verið skref í rétta átt. Refsiaðgerðir hafa til þessa beinst að hluta þeirra sem bera ábyrgð á ástandinu – þingfólki og þeim bönkum sem fjármagna rússneska herinn. Til að virka almennilega þyrfti að bæta um betur en leggja þá áherslu á ofurríku olígarkana í efsta lagi rússnesks samfélags, fólkinu sem viðheldur völdum Pútíns, frekar en að almennir borgarar verði fyrir barðinu á aðgerðunum,” segir Andrés Ingi.
Þorgerður Katrín segir að ef Íslendingum sé alvara í því að verja íslenska hagsmuni sé nauðsynlegt að sýna klærnar. „Ef við viljum standa vörð um þessi grunngildi vestrænna þjóða um frelsi, lýðræði og mannréttindi þá þýðir enginn mélkisuháttur. Aðgerðir Íslands þurfa að vera afgerandi. Við þurfum að læra frá klúðrinu árið 2014,” segir Þorgerður og vísar þar til þess þegar Íslendingar studdu viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Rússum vegna hernaðar í Austur-Úkraínu og innlimunar Krímskaga.
Ef við viljum standa vörð um þessi grunngildi vestrænna þjóða um frelsi, lýðræði og mannréttindi þá þýðir enginn mélkisuháttur. Aðgerðir Íslands þurfa að vera afgerandi. Við þurfum að læra frá klúðrinu árið 2014."
Þýðir ekki að taka undir „mjálm" frá útgerðinni
Á þeim tíma ríkti engin eining um þá afstöðu Íslendinga að styðja aðgerðir gegn Rússum eftir að þeir bættu Íslandi á lista yfir þau lönd sem ekki máttu flytja inn vörur til Rússlands. Margir, meðal annars stjórnarliðar þá, vildu að Ísland tæki viðskiptahagsmuni sjávarútvegsins framyfir stuðning við þvingunaraðgerðir vestrænna ríkja gegn Rússum.
„Þar var afstaða Íslands mjög misvísandi. Nú ríður á að sýna samstöðu og ráðast í alvöru aðgerðir. Þá þýðir ekki að taka undir mjálm frá útgerðinni sem reyndi að gera allt sem hún gat til þess að draga tennurnar úr aðgerðum Íslendinga og draga úr samstöðu þjóðarinnar. Frumskylda smáríkja er að verja landamærin sín. Ef við gerum það ekki verður einfaldlega traðkað á okkur.”
Þá þýðir ekki að taka undir mjálm frá útgerðinni sem reyndi að gera allt sem hún gat til þess að draga tennurnar úr aðgerðum Íslendinga og draga úr samstöðu þjóðarinnar.
Andrés Ingi segist ekki vilja hugsa til þess að ekki finnist friðsamleg lausn á ástandinu. „En það er erfitt að sjá hvernig beinar hernaðaraðgerðir NATO yrðu til annars en að flækja stöðuna."
Andrés Ingi gekk til liðs við Pírata úr VG, flokki sem hefur sett sig upp á móti aðild Íslands að NATO. Hver er afstaða þín nú og ekki síst með tilliti til þess að þú situr fyrir hönd Íslands á Natóþinginu?
„Afstaða mín til Nató hefur ekkert breyst. Það er stefna Pírata að á meðan Ísland er aðili að bandalaginu eigi að tala fyrir friði og mannréttindum innan þess eins og annars staðar á alþjóðavettvangi – og það er eitthvað sem ég ætla að gera sem fulltrúi á Natóþinginu. Það felast tækifæri í því að senda friðarsinna til að taka þátt í stjórnmálaumræðunni innan NATO, frekar en að þar sé eintómur já-kór grjótharðra Natósinna,” segir hann.