„Þegar félög hafa verið stofnuð til höfuðs Icelandair eru áhrifin þau að fargjöld lækka fyrir alla. Samkeppni dregur verðin niður. Við sjáum þessi áhrif greinilega á fargjöldum til Kaupmannahafnar þar sem samkeppni er mikil og fargjöldin lág,“ segir Birgir í samtali við Innherja.
Eftir kortlagningu á flugmarkaðinum valdi PLAY að hefja flug til Orlando þar sem samkeppni í flugi til og frá Íslandi er lítil sem engin og fargjöldin há að sögn Birgis.
„Það verður áhugavert að sjá hvað gerist þegar við hefjum flug til Orlando. Eftir að hafa tilkynnt um miðasölu til New York og fengið mikla kynnningu í Bandaríkjunum sáum við að flugfélögin Delta og United Airlines, sem fljúga bæði milli New York og Íslands, lækkuðu fargjöld til að bregðast við innkomu okkar á markaðinn,“ segir Birgir.
Við höfum skoðað það verð sem samkeppnisaðilar okkar hafa boðið upp á til og frá svæðinu og teljum okkur auðveldlega geta boðið mun lægra verð
„Ég er sannfærður um að innkoma okkar í Orlando muni hrista verulega upp í Flórídamarkaðinum. Við höfum skoðað það verð sem samkeppnisaðilar okkar hafa boðið upp á til og frá svæðinu og teljum okkur auðveldlega geta boðið mun lægra verð.”
Það sem gerir PLAY kleift að fljúga til Orlando er ný Airbus A321neo Long Range (LR) flugvél sem er væntanleg í flota félagsins þegar nær dregur sumri. Nýja flugvélin er sambærileg þeim vélum sem fyrir eru í flota Play en hún hefur það fram yfir systurvélar sínar að geta borið meira eldsneyti.
Spurður hvort það flæki rekstur Play að taka inn langdrægari vélar til að fljúga til fjarlægari áfangastaða, eins og gerðist í tilfelli WOW air, svarar Birgir neitandi.
„Það sem flækti starfsemi WOW air og varð félaginu á endanum að falli voru kaup á langdrægum breiðþotum,“ útskýrir Birgir. „Flugvélin sem við notum til að fljúga til Orlando er nákvæmlega eins og vélarnar sem við erum með í flotanum í dag, nema að því leytinu til að hún er með auka eldsneytistank. Við getum notað hana fyrir aðra áfangastaði en einungis Orlando.“
Fyrsta flug PLAY til Orlando verður þann 30. september og verður flogið þangað þrisvar í viku. Flogið verður til Orlando International flugvallar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Þetta verður fjórði áfangastaður PLAY í Bandaríkjunum en hinir þrír áfangastaðirnir eru Boston, Baltimore/Washington DC og New York.