Innherji

„Ég held að enginn vilji snúa aftur til Verbúðardaganna"

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Agnes Guðmundsdóttir fer fyrir félaginu Konur í sjávarútvegi. Hún segir sjávarútveginn hafa alltof lengi haft vont orð á sér.
Agnes Guðmundsdóttir fer fyrir félaginu Konur í sjávarútvegi. Hún segir sjávarútveginn hafa alltof lengi haft vont orð á sér. Mynd/Jón Guðmundsson

„Sjávarútvegur dagsins í dag snýst um svo margt annað og fleira en bara veiðar, vinnslu og þras á göngum Alþingis um veiðigjald," segir Agnes Guðmundsdóttir, hjá Icelandic Asia og formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Hún ræðir Verbúðina, veiðigjöld og nýja rannsókn um stöðu kvenna í greininni. 

Félagið sem Agnes stendur í stafni fyrir, Konur í sjávarútvegi, lét nýverið framkvæma rannsókn á stöðu kvenna í greininni árið 2021 og bera saman við niðurstöður úr samskonar könnun sem gerð var árið 2016. Könnunin var lögð fyrir 422 fyrirtæki, stofnanir og deildir innan fyrirtækja sem flokkuðust undir sjávarútveg.

Konur hafa verið vannýtt auðlind í sjávarútvegi og þær sem hafa verið starfandi innan greinarinnar hafa ekki verið nægilega sýnilegar. Rannsóknir sýna enn fremur að gott tengslanet skiptir máli fyrir fólk sem vill sækja fram og þess vegna hefur félagið Konur í sjávarútvegi einblínt á að efla tengslanet, sýnileika og þekkingu þeirra kvenna sem starfa í greininni. Í félaginu má finna fjölda kvenna úr mismunandi greinum sjávarútvegs sem eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á öllu því sem viðkemur hafinu.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar á opnum fundi sem félagið heldur ásamt Íslandsbanka um framtíð sjávarútvegs og fjárfestingar í greininni á miðvikudaginn klukkan 9 í höfuðstöðvum bankans í Turninum Kópavogi. Fundinum verður streymt beint á Vísi.

Flokkun fyrirtækja og mismunandi greina innan sjávarútvegs sem notast var við í rannsókninni. 

Sjávarútvegur orðin mun fjölbreyttari geiri en áður

Agnes segir nýsköpun innan sjávarútvegs sífellt verða meiri og fjölmörg ný og verðmæt þekkingarstörf séu að verða til. 

„Greinin hefur þróast mikið í gegnum árin og er nú orðin miklu fjölbreyttari en hún var. Verðmætasköpunina á bakvið hvern fisk má sjá í lækningarvörum, bætiefnum, snyrtivörum og svo auðvitað matvörunni sjálfri. Að baki þessarar verðmætasköpunar eru öflug fyrirtæki, stór og smá um allt land."

Þar má til dæmis nefna Kerecis á Ísafirði, Marine Collagen í Grindavík og Genis á Siglufirði. „Þessi fyrirtæki búa til verðmæti í formi útsvars fyrir bæjarfélög um allt land, skattgreiðslna til ríkisins og síðast en ekki síst fjölbreytt störf sem laða að sér ólíka einstaklinga með ólíkan bakgrunn og gera fleiri konum kleift að sinna störfum í ótal hliðargreinum sjávarútvegs,” segir Agnes.

Félag kvenna í sjávarútvegi ætlar sér stóra hluti. Agnes segir markmiðið með félagsskapnum meðal annars að efla tengslanet kvenna í greininni.

Þannig sé verið að nýta auðlindina sem tekin er úr hafinu mun betur. „Og séð til þess að hún skilji meira eftir sig en áður og að það dreifist um allt samfélagið,” segir Agnes og imprar á mikilvægi þess að halda áfram að byggja undir hugvitið sem hefur drifið þessa þróun áfram.

„Þessi þróun hefur líka orðið til þess að sjávarútvegur stendur sterkari að vígi en margar aðrar atvinnugreinar. Til þess að svo megi verða til framtíðar þarf að ýta undir fjölbreytta flóru fólks sem vinnur innan greinarinnar, því hugvit er ekkert annað en ólíkar hugmyndir úr ólíkum áttum sem verða að verðmætum í réttum jarðvegi.”

Eins megi aldrei líta framhjá þeirri staðreynd að árangurinn sem náðst hefur innan greinarinnar standi á sterkum stoðum hafrannsókna. 

„Því það er takmarkað sem má veiða og þess vegna þarf að nýta aflann vel. Samspil þessara tveggja þátta, hugvitsins sem þrífst best í fjölbreyttu umhverfi og áhersla á að hlusta á vísindin er besta leiðin til að styðja við nýsköpun í greininni og auka hana enn frekar.”

Þessi þróun hefur líka orðið til þess að sjávarútvegur stendur sterkari að vígi en margar aðrar atvinnugreinar. Til þess að svo megi verða til framtíðar þarf að ýta undir fjölbreytta flóru fólks sem vinnur innan greinarinnar, því hugvit er ekkert annað en ólíkar hugmyndir úr ólíkum áttum sem verða að verðmætum í réttum jarðvegi.

Umræðan föst í fortíðardraugum

Sjónvarpsþáttaröðin Verbúðin hefur skapað líflegar umræður og þá sérstaklega um kvótakerfið undanfarið, hvað finnst þér um þáttaröðina?

„Ég vil hrósa höfundum fyrir þessa þáttaröð sem hefur verið ákveðin vitundarvakning fyrir marga. Það er á hreinu að það þarf að kynna sjávarútveginn fyrir kynslóðum framtíðarinnar svo framþróun geti haldið áfram. 

Þó svo þættirnir séu ekki bein söguheimild þá endurspegla þeir umgjörðina í kringum greinina á sínum tíma, það er þó fátt skylt með þeim heimi sem birtist í Verbúðinni og þeim stað sem sjávarútvegurinn er kominn á í dag. Sem betur fer,” segir Agnes sem segir sjávarútveginn hafa allt of lengi haft alltof vont orð á sér.

„Enda er umræðan föst í fortíðardraugum og það er fagnaðarefni ef þessir þættir verða til þess að víkka út umræðuna og auka skilning og ekki síst áhuga á faginu. Því það hefur vantað umræðu um sjávarútveg hjá yngri kynslóðinni og vonandi verður þessi sjónvarpsþáttaröð til þess að hún aukist og ný tækifæri skapist,” segir Agnes.

Þó svo þættirnir séu ekki bein söguheimild þá endurspegla þeir umgjörðina í kringum greinina á sínum tíma, það er þó fátt skylt með þeim heimi sem birtist í Verbúðinni og þeim stað sem sjávarútvegurinn er kominn á í dag. Sem betur fer.

Nokkuð hefur borið á umræðu um aukna skattlagningu á sjávarútveginn undanfarið og ráðamenn innan ríkisstjórnarinnar meðal annars nefnt hugmyndir um slíkt. Hvað finnst þér um þetta eilífa bitbein stjórnmálanna?

„Umræðan um skattlagningu er góð og gild en á sama tíma er mjög mikilvægt að hafa í huga að okkur hefur tekist hér á landi það sem fáum þjóðum hefur tekist - að gera sjávarútveg að arðbærri atvinnugrein sem auk þess nýtir auðlindir með sjálfbærum hætti. Við erum lítil þjóð og megum vera gífurlega stolt af þessum árangri. Sjávarútvegurinn hefur skapað mörg störf og skilað miklum tekjum til samfélagsins auk þess að fjármagna hin ýmsu nýsköpunarfyrirtæki,” segir Agnes.

Ég held að það vilji enginn fara aftur til Verbúðardaganna árið 1987 og eða síldarhvarfsins árið 1967. En við höfum ástæðu til þess að vera bjartsýn um að árið 2037 verði okkur mjög gott ef við höldum áfram að byggja undir fjölbreytileika og nýsköpun í greininni

Sjávarútvegurinn hafi einmitt sýnt með góðum hætti hvernig einkaframtakið hefur rutt brautina og búið til arðbæra atvinnugrein. 

„Sem hefur þannig möguleika að fjármagna bættan aðbúnað sjómanna og fiskvinnslufólks og það sem meira er, fjárfesta í framtíðinni eins og gert hefur verið undanfarna áratugi með góðum árangri. 

Ég held að það vilji enginn fara aftur til Verbúðardaganna árið 1987 og eða síldarhvarfsins árið 1967. En við höfum ástæðu til þess að vera bjartsýn um að árið 2037 verði okkur mjög gott ef við höldum áfram að byggja undir fjölbreytileika og nýsköpun í greininni,” segir Agnes að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×