Erlent

Fannst á lífi eftir 53 tíma um borð í logandi skipi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vörubílstjórinn sem bjargaðist úr skipinu eftir 53 klukkustundir.
Vörubílstjórinn sem bjargaðist úr skipinu eftir 53 klukkustundir. AP/Stamatis Katopodis

Einn af tólf farþegum sem saknað var eftir að eldur kviknaði um borð í farþegaskipi fannst á lífi í morgun, 53 klukkustundum eftir að eldurinn kviknaði. Björgunaraðilar vonast til þess að hinir séu einnig á lífi.

Það fyrsta sem hinn 21 árs gamli vörubílstjóri frá Hvíta-Rússlandi sagði þegar hann fannst var: „Segið mér að ég sé á lífi“. Björgunarmenn fundu hann í skuti skipsins en BBC hefur eftir fjölmiðlum í Grikklandi að maðurinn sagðist hafa heyrt aðrar raddir um borð.

Eldur kviknaði um borð í ítalska skipinu Olympia á aðfaranótt föstudags er verið var að sigla því frá Igoumenitsa í Grikklandi til Brindisi á Ítalíu. Síðan þá hefur mikill eldur logað í skipinu og hitastig þar um borð hefur náð allt að sex hundruð gráðum.

Mikill eldur hefur logað um borð í Euroferry Olympia undan ströndum Grikklands.AP/Petros Giannakouris

280 manns voru um borð. Þar af 51 í áhöfn skipsins. Mikil óreiða myndaðist um borð eftir að eldurinn kviknaði og ljóst var að áhöfnin hefði misst tök á honum.

Ekki liggur fyrir hvernig eldurinn kviknaði og er rannsókn á upptökum hans hafin.

Samkvæmt fjölmiðlum ytra hefur fundur mannsins vakið vonir um að hinir ellefu farþegarnir sem saknað er, gætu enn verið á lífi. Allir eru þeir vörubílstjórar og voru sofandi í bílum sínum þegar eldurinn kviknaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×