Sport

Valieva brotnaði saman og komst ekki á verðlaunapall

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kamila Valieva var ólík sjálfri sér á skautasvellinu í dag.
Kamila Valieva var ólík sjálfri sér á skautasvellinu í dag. getty/Catherine Ivill

Kamila Valieva komst ekki í verðlaunapall í einstaklingskeppni í listdansi á skautum á Vetrarólympíuleikunum í Peking.

Valieva hefur verið einn umtalaðasti íþróttamaður heims undanfarna daga eftir að hún féll á lyfjaprófi þegar hjartalyf greindist í sýni hennar. Þrátt fyrir það fékk hún leyfi til að keppa áfram á Vetrarólympíuleikunum. Hún hafði þegar hjálpað Rússum að vinna gull í liðakeppninni og hún þótti lang sigurstranglegust í einstaklingskeppninni. 

Hin fimmtán ára Valieva var efst eftir skylduæfingarnar á þriðjudaginn og því í góðri stöðu fyrir frjálsu æfingarnar í dag. Sú rússneska náði sér hins vegar ekki á strik og datt nokkrum sinnum.

Fyrir frjálsu æfingarnar fékk Valieva 141,93 í einkunn og varð í 5. sæti. Samtals fékk hún 224,09 í einkunn sem dugði henni ekki til að komast á verðlaunapall. Valieva þurfti að gera sér 4. sætið að góðu. Kastljósið hefur verið á Valievu undanfarna daga og pressan virtist bera hana ofurliði. Eftir keppnina brotnaði hún saman á skautasvellinu.

Landa hennar, Anna Shcherbakova, hrósaði sigri en hún var í 2. sæti í bæði skylduæfingunum og frjálsu æfingunum. Samanlögð einkunn hennar var 255,95. 

Annar Rússi, Alexandra Trusova, varð önnur með 251,73 í heildareinkunn. Hún var í efst í frjálsu æfingunum en fjórða í skylduæfingunum.

Kaori Sakamoto frá Japan endaði í 3. sæti með 233,13 í heildareinkunn. Landa hennar, Wakaba Higuchi, varð fimmta með samanlagða einkunn upp á 214,44.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×