Sport

Mamman saumar keppnisbúninginn hennar á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Móðir Karenar Chen hannaði og saumaði þennan flotta keppnisbúning fyrir hana.
Móðir Karenar Chen hannaði og saumaði þennan flotta keppnisbúning fyrir hana. Getty/ Jean Catuffe

Bandaríska skautakonan Karen Chen getur ekki hugsað sér annað en að keppa í búningum sem móðir hennar hannar og saumar.

„Það er erfitt að útskýra þetta en mér líður bara best þegar ég keppi í þeim,“ sagði Karen Chen við New York Times.

Hsiu-Hui Tseng, móðir Karenar, hannar því langflesta keppnisbúninga dótturinnar og hún keppir í þeim á öllum stærstu mótum heims.

Hsiu-Hui Tseng hefur saumað búningana frá því að Karen var lítil. Hún hlustar á tónlistina sem Karen notar undir dansinum sínum, leitar síðan á netinu og í tískublöðum til að finna sér innblástur fyrir næstu hönnun.

Það þýðir mikla saumavinnu að búa til keppnisbúning í listdans á skautum enda eru þetta vanalega skrautlegir búningar með fullt af litlum hlutum.

„Hún vinnur alla vinnuna með blóði, svita og tárum,“ sagði Karen við Vanity Fair.

Keppnisbúningurinn sem Karen Chen keppir í þegar úrslitin ráðast á Vetrarólympíuleikunum varð til á síðustu stundu. Mamma hennar hafði eitt fjórum dögum og tuttugu vinnustundum í að sauma hann og rétt náði að klára hann daginn fyrir brottförina til Kína.

„Ég svaf lítið sem ekkert. Ég vildi gera eitthvað sérstakt fyrir hana. Ég veit að ég fæ ekki þetta tækifæri í framtíðinni því þá mun hún lifa allt öðru lífi. Þá mun ég sakna þess,“ sagði Hsiu-Hui Tseng við New York Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×