Innherji

Haraldur í Ueno og Eldhrímnir á meðal stærstu hluthafa indó

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Haraldur Þorleifsson
Haraldur Þorleifsson

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, og fjárfestingafélagið Eldhrímnir eru á meðal stærstu hluthafa áskorendabankans og sparisjóðsins indó sem hefur nýlega fengið starfsleyfi hjá Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram á hluthafalista indó sem Innherji hefur undir höndum.

Tveir stærstu hluthafar indó eru stofnendur sparisjóðsins, þeir Tryggvi Björn Davíðsson og Haukur Skúlason. Tryggvi Björn á 18,7 prósenta hlut en Haukur rúm 17 prósent.

Aðeins einn annar hluthafi á meira en tíu prósenta hlut en það fjárfestingafélagið Eldhrímnir sem fer með 14,5 prósent. Eldhrímnir, sem er í eigu Ingimundar Sveinssonar arkitekts og fjölskyldu, hagnaðist gríðarlega á fjárfestingu sinni í skyrgerðinni Siggi‘s og var með eigið fé upp á 4,3 milljarða króna í lok árs 2020.

Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarstofunnar Ueno, er fjórði stærsti hluthafinn með tæplega 6 prósenta hlut. Eins og kunnugt er seldi Haraldur fyrirtæki sitt til samfélagsmiðilsins Twitter í byrjun árs 2021 fyrir háar fjárhæðir.

Seðlabanki Íslands veitti indó leyfi til að starfa sem sparisjóður í gær. Sparisjóðurinn tryggði sér tæplega 600 milljóna króna fjármögnun síðastliðið haust og var það hluti af lokaskrefunum til að fá tryggja samþykki á starfsleyfisumsókn. Á næstu mánuðum mun félagið ganga frá samþættingu tölvukerfa sinna við kerfisinnviði Seðlabankans.

Finna má fleiri kunnugleg nöfn í efstu tíu sætum hluthafalistans, svo sem Iceland venture studios, sem er stýrt af Bala Kamallakharan, eignarhaldsfélagið Adira ehf., sem er aðaleigandi Nespresso á Íslandi og er í eigu Jónasar Hagan Guðmundssonar, og loks Omega ehf., sem er í eigu Birgis Más Ragnarssonar og Andra Sveinssonar en þeir hafa um langt skeið verið viðskiptafélagar Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Í viðtölum við stofnendur indó hefur komið fram að áform félagsins miði að því að að bjóða upp á veltureikninga tengda við debetkort og verður þjónustan alfarið í snjallsímaforriti. Ólíkt hefðbundinni bankastarfsemi verða innstæður viðskiptavina indó ekki lánaðar út, nema til ríkisins. Þannig verða öll innlán hjá indó lögð inn á reikning hjá Seðlabankanum eða þeim fjárfest í ríkisskuldabréfum.


Tengdar fréttir

Nýr banki fer í beina sam­­keppni við stóru við­­skipta­bankana

Nýr banki er við það að hefja starf­semi á Ís­landi og ætlar sér í beina sam­keppni við stóru banka landsins um við­skipta­vini. Hann verður að öllu leyti rekinn á raf­rænu formi, mun ekki halda úti einu einasta úti­búi en telur sig munu breyta ís­lenskum banka­markaði til fram­tíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×