„Ef íbúðaverðshækkanirnar verða svona eitthvað áfram, og í takt við aðra þróun t.d. á olíuverði, gæti verðbólgutakturinn hæglega slegið í 7 prósent eða meira áður en verðbólgan tekur að hjaðna,“ segir Konráð í samtali við Innherja.
Þjóðskrá Íslands birti í gær vísitölu íbúðaverðs fyrir höfuðborgarsvæðið í janúarmánuði. Vísitalan hækkaði um 1,7 prósent á milli mánaða en það þýðir að árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu er komin rétt yfir 20 prósent.
„Í sjálfu sér ætti svona mikil íbúðaverðshækkun ekki að koma á óvart,“ segir Konráð. „Þessi 1,7 prósenta hækkun er í ágætum takti við það sem hefur verið síðustu mánuði og á sama tíma hefur þróun ásetts verðs og söluframboðs bent til töluverðra hækkana.“
Hagstofa Íslands mun birta verðbólgumælingu fyrir febrúar í næstu viku og á mánudaginn greindi Innherji frá því að spár greiningadeilda bankanna lægju á bilinu 5,8 prósent og 6,1 prósent á ársgrundvelli. Þessar spár voru settar fram áður en mæling Þjóðskrár á þróun íbúðaverðs lá fyrir.
„Þessi mæling ein og sér virðist lyfta öllum þessum verðbólguspám upp um a.m.k. 0,1 prósent og þar sem það sjást lítil merki um að það sé að hægja á íbúðamarkaðnum alveg strax grunar mig að húsnæðisliðurinn sé einnig vanmetinn í spám næstu mánuði,“ segir Konráð.
„Aftur á móti hlýtur að koma bráðlega að því,“ bætir hann við, „að verðið verði einfaldlega orðið það hátt að það kæli eftirspurnina og að það hægi á verðhækkunum.“
Aftur á móti hlýtur að koma bráðlega að því að verðið verði einfaldlega orðið það hátt að það kæli eftirspurnina og að það hægi á verðhækkunum
Verðbólga á tólf mánaða grundvelli mældist 5,7 prósent í janúar sem er mesta verðbólga hér á landi í tæplega 10 ár og var langt umfram spár greinenda. Þetta var jafnframt mesta hækkun á verðlagi milli janúar og desember síðan í janúar 2009.
Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þá ákvörðun að hækka vexti um 75 punkta og vísaði í versnandi verðbólguhorfur. Samkvæmt nýrri verðbólguspá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent út þriðja ársfjórðung.