Klinkið

Pyrrhosarsigur Sólveigar Önnu

Ritstjórn Innherja skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. vísir/vilhelm

Sólveig Anna Jónssdóttir verður formaður Eflingar á ný eftir að hafa tryggt sér nauman meirihluta atkvæða í nýafstöðnu stjórnarkjöri. Hún kemur löskuð út úr hatrammri kosningabaráttu og umboð hennar er mun veikara heldur en það var fyrir fjórum árum síðan. Þetta var sannkallaður Pyrrhosarsigur.

Berum niðurstöðurnar saman við stjórnarkjörið árið 2018 þegar Sólveig Anna vann yfirburðarsigur. Þá fékk hún nær 2.100 þúsund atkvæði en mótframboðið einungis rúm 500. Alls tóku 2.618 félagsmenn þátt í stjórnarkjörinu og fékk Sólveig því 80 prósent af greiddum atkvæðum.

Niðurstaðan í þessu stjórnarkjöri var allt önnur. Að vísu fékk B-listi Sólveigar Önnu álíka mörg atkvæði og fyrir fjórum árum síðan, eða rúmlega 2 þúsund. Svo virðist sem hún eigi dyggan aðdáendahóp. En greiddum atkvæðum fjölgaði um 1.300 og þau runnu öll til mótframboða.

B-listinn fékk 52 prósent greiddra atkvæða, A-listinn 37 prósent og C-listinn 8 prósent. Samanlagt fylgi mótframboða var því 45 prósent. Þetta eru skýr merki um að óánægja með störf og framgöngu formannsins sé ekki bundin við skrifstofufólk Eflingar. Óánægjan er mun útbreiddari og skyldi engan undra.

Í kosningabaráttunni voru stjórnarhættir B-listans dregnir fram í dagsljósið og voru lýsingar starfsfólksins slíkar að mörgum fannst nóg um. Eflaust er starfsfólkið uggandi yfir niðurstöðunni.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×