Sport

Send heim af Ólympíuleikunum: Hjarta mitt er brostið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það þurfti að bera hin norsku Ingrid Landmark Tandrevold af keppnissvæðinu eftir síðustu greinina hennar.
Það þurfti að bera hin norsku Ingrid Landmark Tandrevold af keppnissvæðinu eftir síðustu greinina hennar. Getty/Tom Weller

Norska skíðaskotfimikonan Ingrid Landmark Tandrevold tekur ekki þátt í fleiri greinum á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Hún var send heim af leikunum af læknisráði.

Tandrevold kom fram á blaðamannafundi þar sem farið var yfir ástæður þess að hún má ekki keppa meira á leikunum. Tandrevold átti mjög erfitt fyrir framan fjölmiðlafólkið og fyrr en varir fóru tárin að renna.

„Það er alveg ljóst að keppnismanneskjan í mér vildi keppa en,“ sagði Ingrid Landmark Tandrevold áður norsku liðslæknirinn tók af henni orðið.

„Það var ég sem þurfti að taka þessa ákvörðun og segja hingað en ekki lengra. Stundum þarf maður að taka slæma ákvörðun fyrir viðkomandi til að passa upp á hann,“ sagði Lars Kolsrud læknir.

Hin 25 ára gamla norska skíðakona var vissulega búin að eiga mjög erfiða leika. Í bæði sprettgöngunni og eltigöngunni þá hneig hún niður eftir að hafa komist yfir marklínuna.

Hún var ein í þriðja sæti í eltigöngunni þegar einn kílómetri var eftir en þá hrundi allt hjá henni og hún endaði bara í fjórtánda sæti.

Sérfræðingar innan norska liðsins telja að þunna loftið hafi reynst henni svona skeinuhætt.

„Ég var að eiga einn minn besta dag í íþróttinni en allt í einu breyttist hann í þann versta,“ sagði Ingrid.

„Nú er orðið ljóst að ég má ekki keppa meira á þessum Ólympíuleikum af heilsufarsástæðum. Mér þykir þetta mjög leitt auðvitað. Hjarta mitt er brostið og það er ekki af heilsuleysi,“ sagði Ingrid grátandi.

Hún mun gangast undir ítarlegar rannsóknir þegar hún kemur heim til Noregs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×