Golf

Fékk bjórbað eftir að hafa farið holu í höggi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlos Ortiz fékk örn á móti á PGA-mótaröðinni í gær.
Carlos Ortiz fékk örn á móti á PGA-mótaröðinni í gær. getty/Sam Greenwood

Bjór rigndi yfir Carlos Ortiz eftir að hann fór holu í höggi á móti á PGA-mótaröðinni í gær.

Ortiz fékk örninn á 16. holu á Waste Management Phoenix Open mótinu. Fjölmargir áhorfendur urðu vitni að því en 16. holan er umkringd sætum í stúku TPC Scottsdale vallarins þar sem mótið fór fram. Áhorfendur fögnuðu tilþrifum Ortiz með því að sulla bjór og kasta bjórdósum í hann.

„Þetta var ótrúlegt. Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við. Fólkið fagnaði og svo þurftirðu bara að passa sig að fá ekki dósir í hausinn,“ sagði Ortiz.

Þetta var ekki fyrsti örninn á 16. holunni á TPC Scottsdale á mótinu því Sam Ryder fór hana einnig á holu í höggi á laugardaginn.

Þetta er í fyrsta sinn í 25 ár sem tveir keppendur fara holu í höggi á 16. braut á TPC Scottsdale. Það gerðist síðast 1997 þegar Tiger Woods og Steve Stricker afrekuðu það.

Ortiz lék samtals á sjö höggum undir pari og var nokkuð langt á eftir sigurvegaranum Scottie Scheffler sem vann sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×