Fótbolti

Bochum kláraði þýsku meistarana í fyrri hálfleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bochum vann vægast sagt óvæntan sigur gegn Þýskalandsmeisturum Bayern München í dag.
Bochum vann vægast sagt óvæntan sigur gegn Þýskalandsmeisturum Bayern München í dag. Joosep Martinson/Getty Images

Bochum vann ansi óvæntan 4-2 sigur er liðið tók á móti Þýskalandsmeisturum Bayern München í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Gestirnir í Bayern fóru vel af stað og komust yfir með marki frá Robert Lewandowski strax á níundu mínútu leiksins.

Christopher Antwi-Adjej jafnaði hins vegar metin fyrir heimamenn fimm mínútum síðar. Staðan var svo orðin 2-1, heimamönnum í vil, á 38. mínútu þegar Jurgen Locadia skoraði af vítapunktinum eftir að Dayot Upamecano handlék knöttinn innan vítateigs.

Þrátt fyrir að stutt væri til hálfleiks voru heimamenn ekki hættir. Cristian Gamboa skoraði þriðja mark liðsins á 40. mínútu og Gerrit Holtmann sá til þess að staðan var 4-1 þegar flautað var til hálfleiks með marki fjórum mínútum síðar.

Þýsku meistararnir þurftu sárlega á mörkum að halda í síðari hálfleik, og helst sem fyrst. Þeim tókst loksins að minnka muninn þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka með marki frá markamaskínunni Robert Lewandowski, en nær komust þeir ekki og niðurstaðan varð 4-2 sigur heimamanna.

Bochum situr nú í ellefta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 22 leiki. Bayern trónir hins vegar enn á toppi deildarinnar með níu stiga forskot á Dortmund sem situr í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×