Innherji

Guðmundi meinuð þátttaka í prófkjöri Samfylkingarinnar

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson virðist ekki mega bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar.
Guðmundur Ingi Þóroddsson virðist ekki mega bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar.

Kjörstjórn fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur ógilt framboð Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns Afstöðu, í prófkjöri Samfylkingarinnar til sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík. 

Innherji hefur áður greint frá því að Guðmundur hafi verið einkar duglegur við að skrá nýja flokks- og stuðningsmenn í flokkinn í þeim tilgangi að kjósa sig í prófkjörinu. Hann kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar sem hann segir þegar hafa staðfest ógildingu framboðsins.

Guðmundur Ingi Þóroddsson frambjóðandi til þriðja sætis á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík sendi út yfirlýsingu á lokaðri stuðningsmannasíðu sinni rétt í þessu þar sem hann segir kjörstjórn fulltrúaráðs flokksins hafa ógilt framboð sitt. Prófkjörið hefst snemma í fyrramálið. Ástæðan er sú að hann telst ekki kjörgengur vegna fortíðar sinnar sem dæmdur glæpamaður.

„Ég hefði auðvitað viljað að Samfylkingin stæði með mér til að ég gæti látið reyna á þau mannréttindi mín að fá að bjóða mig fram, og fyrir dómi ef um þann rétt minn yrði efast, enda liggja ófá lögfræðiálit fyrir um kjörgengið," segir Guðmundur í færslunni.

„Það er líka sárt að fá þessi tíðindi svona kvöldið áður en prófkjörið hefst enda hafði Ásta Guðrún Helgadóttir, formaður kjörstjórnar, sagt mér að kjörgengi mitt hefði verið rætt innan flokksins. Ekki væri lengur um það deilt að ég væri kjörgengur," segir Guðmundur í færslunni, en hann hefur hlotið dóma vegna saknæmra athæfa í gegnum tíðina.

Ég hefði auðvitað viljað að Samfylkingin stæði með mér til að ég gæti látið reyna á þau mannréttindi mín að fá að bjóða mig fram

Hann segir í færslunni að vegna ábendingar sem kjörstjórn hafi borist í vikunni hafi eitthvað breyst síðan framboð hans var tekið gilt á fundi kjörstjórnar þann 22. janúar síðastliðinn. „Kannski dugnaður okkar sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum," en Innherji greindi frá því í vikunni að Guðmundur hefði verið einkar atkvæðamikill í smölun í flokkinn fyrir prófkjörið.

„Ég hef ekki haft neitt ráðrúm til að hugsa hvað tekur við núna eða hvernig samlíf mitt með Samfylkingunni heldur áfram eftir þetta. Ég sef á því í nótt," segir Guðmundur í færslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×