Fótbolti

Karólína framlengir við Bayern til 2025: „Mjög glöð og stolt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á sínu öðru tímabili hjá Bayern München.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er á sínu öðru tímabili hjá Bayern München. bayern münchen

Íslenska landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur framlengt samning sinn við Þýskalandsmeistara Bayern München til 2025.

Karólína gekk í raðir Bayern frá Breiðabliki í ársbyrjun 2021. Hún varð þýskur meistari með Bæjurum á síðasta tímabili.

„Ég er mjög glöð og stolt af því að framlengja samninginn minn við Bayern München. Ég hlakka til að þroskast enn frekar hér. Ég hef þegar lært mikið síðasta árið í München. Ég hef orðið sterkari og betri, bæði sem leikmaður og manneskja,“ sagði Karólína við undirritun samningsins.

Bianca Rech, íþróttastjóri Bayern, kvaðst ánægð með að hafa Karólína áfram í herbúðum Bæjara.

„Það er frábært að sjá hvernig Karólína hefur þroskast undanfarna mánuði. Hún er frábær karakter og við hlökkum til að styðja hana áfram næstu árin. Karólína fær okkur mikla gleði,“ sagði Rech.

Karólína, sem er tvítug, hefur leikið sautján leiki fyrir Bayern og skorað tvö mörk. Annað þeirra kom í fyrsta leik hennar fyrir Bayern, í 1-6 sigri á BIIK Kazygurt frá Kasakstan í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Bayern er í 2. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 31 stig, einu stigi á eftir toppliði Wolfsburg. Næsti leikur Bayern er gegn Freiburg á útivelli á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×