Könnun verkfræðistofunnar EFLU leiddi í ljós að á nokkrum stöðum og á afmörkuðum svæðum í húsakynnum bankans í Kvosinni voru rakaskemmdir og ummerki um myglu. Skemmdir fundust í húsum sem ýmist eru í eigu bankans eða fasteignafélags.
„Mælingar bentu ekki til þess að vandinn væri mjög alvarlegur og skemmdirnar voru ekki umfangsmiklar miðað við aldur húsanna og uppbyggingu,“ segir í svari Landsbankans en niðurstöðurnar lágu fyrir í desember 2021.
„Viðgerðir standa yfir og verður að fullu lokið áður en eignirnar sem eru í eigu bankans verða seldar og því ætti málið ekki að hafa áhrif á mögulegt söluverð. Endanlegur kostnaður vegna viðgerðanna liggur ekki fyrir en ljóst er að hann verður ekki verulegur,“ segir jafnframt í svari bankans.
Þá tekur bankinn fram að nýleg könnun á Austurstræti 11, þar sem aðalútibúið er til húsa, hafi ekki leitt í ljós neinar skemmdir á húsinu.
Vegna viðgerðanna var starfsfólk ýmist flutt til innan Kvosarinnar eða í húsnæði bankans við Borgartún 33. Rúmlega 70 starfsmenn sem áður voru í Kvosinni eru nú með starfsstöð í Borgartúni.
Landsbankinn áformar eins og kunnugt er flytja í nýtt húsnæði við Austurhöfn en Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, sagði nýlega í samtali við Vísi að hún gerði sér vonir um að flutningarnir gætu farið fram í lok árs 2022. Nýbyggingin við Austurhöfn spannar 16.500 fermetra, og gerir Landsbankinn ráð fyrir að nýta 60 prósent. Afgangurinn, um 6.500 fermetra, verður leigður út eða seldur.
Með því að flytja í nýjar höfuðstöðvar gerir Landsbankinn ráð fyrir að spara um 500 milljónir króna á ári. Snemma árs 2020 var greint frá því heildarkostnaður við nýjar höfuðstöðvar bankans yrði 11,8 milljarðar króna, samkvæmt kostnaðaráætlun. Það væri um 1,8 milljörðum króna hærri kostnaður en upphaflega var gert ráð fyrir.