Handbolti

Prestur á­nægður með að strákarnir okkar séu dug­legir að tala um til­finningar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Handboltalandsliðið fagnar hér sigri á EM og séra Guðni Már Haraldsson á bæn.
Handboltalandsliðið fagnar hér sigri á EM og séra Guðni Már Haraldsson á bæn. Samsett/Getty&S2 Sport

Guðjón Guðmundsson var aftur mættur með innslag í Seinni bylgjuna í fyrsta þætti eftir Evrópumótið í handbolta. Það þessu sinni hitti hann prest í Kópavogi sem er mikill handboltaáhugamaður.

„Handboltinn er án nokkurs vafa þjóðaríþrótt okkar Íslendinga. Stuðningsmennirnir margir hverjir eru algjörlega forfallnir. Sumir hverjir á guðs vegum,“ sagði Guðjón Guðmundsson.

„Séra Guðni Már Haraldsson í Lindarkirkju í Kópavogi er forfallinn stuðningsmaður handboltans og hefur verið um árabil en hvers vegna,“ spurði Gaupi.

„Ég byrjaði að horfa átta ára á ÓL í Seoul og svo kom B-keppnin árið eftir 1989. Svo hefur þetta vara fylgt okkur. Það er ekkert sem gleður okkur jafnmikið í janúar eins og handboltalandsliðið,“ sagði séra Guðni Már Haraldsson.

„Það eru svo góðar fyrirmyndir í liðinu, duglegir að tala um tilfinningar og eru því bæði fyrirmyndir á andlegan og líkamlegan hátt,“ sagði séra Guðni.

Klippa: Seinni bylgjan: Gaupi og handboltapresturinn

„Ég reyndi að æfa sjálfur en ég var að æfa með Róberti Gunarssyni meðal annars og átti að reyna að fara inn á línuna á eftir honum. Það var einhverjar sendingar sem var ekki hægt að ná, hann var bara á einhverju öðru kaliberi. Ég hætti því fljótlega og lét honum þetta eftir,“ sagði séra Guðni hlæjandi.

„Þetta er bara yndislegt sport. Það er svo auðvelt þegar maður á börn sjálfur því þótt að þú sért bara fimm ára þá fylgist þú með því það er svo mikið að gerast í handbolta,“ sagði séra Guðni.

En er hann að ræða við himnaföðurinn um gang mála í leikjunum?

„Bænin er góð til að róa taugarnar og senda góða strauma og blessunaróskir. Ég er samt búinn að það út að sérstaklega í vítum, þegar maður vill að strákarnir skori og Bjöggi verji, þá er útsendingin tuttugu sekúndum á eftir. Um leið og dómararnir flauta þá byrja ég að biðja,“ sagði séra Guðni.

Það má finna allt innslagið frá Gaupa hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×