Sport

Grænlenska skyttan klikkaði ekki á einu skoti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ukaleq Astri Slettemark er hér komin í markið eftir frumraun sína á Ólympíuleikum.
Ukaleq Astri Slettemark er hér komin í markið eftir frumraun sína á Ólympíuleikum. AP/Kirsty Wigglesworth

Ukaleq Slettemark stóð sig vel í sinni fyrstu keppni á Ólympíuleikunum en þessi tvítuga grænlenska skíðaskotfimikona keppir fyrir Dani á Vetrarólympíuleikunum í Peking.

Slettemark keppti í 15 kílómetra göngu í skíðaskotfimi og það sem vakti sérstaklega athygli var hittni hennar.

Slettemark hitti nefnilega úr tuttugu af tuttugu skotum sínum og þurfti því ekki að taka út neina refsingu.

Hún mætti greinilega vera aðeins sterkari á skíðunum en frábær hittni skilaði henni 53. sæti af 87 keppendum.

Slettemark kláraði á 50 mínútum og fjórum sekúndum.

Denise Herrmann frá Þýskalandi vann gull, Anais Chevalier-Bouchet frá Frakklandi tók silfrið og hin norska Marte Olsbu Roeiseland fékk brons.

Herrmann er þrettán árum eldri en Slettemark, Chevalier-Bouchet er átta árum eldri en hún og Roeiseland er ellefu árum eldri. Hún ætti því að framtíðina fyrir sér að koma sér í hóp þeirra bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×