Innlent

Íslensku húsdýrin mætt í nýja miðbæinn á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Katrín J. Óskarsdóttir, sem býr í Miðtúni við Hvolsvöll er listamaður mánaðarins í Gallerý Lista Seli á Selfossi í nýja miðbænum á Selfossi.
Katrín J. Óskarsdóttir, sem býr í Miðtúni við Hvolsvöll er listamaður mánaðarins í Gallerý Lista Seli á Selfossi í nýja miðbænum á Selfossi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Geit, svín, kýr, kind, hæna, hundur, köttur og hestur hafa nú komið sér fyrir í nýja miðbænum á Selfossi. Þetta eru þó ekki lifandi dýr því þau eru öll upp á vegg í ramma eftir listamann, sem hefur teiknaði þau svo fallega.

Í nýja miðbænum er Gallerý Lista Sel í fallegu húsnæði en þar er alltaf listamaður mánaðarsins með sýningu. Í febrúar er það Katrín J. Óskarsdóttir, sem býr í Miðtúni við Hvolsvöll en hún hefur teiknað öll húsdýrin á Íslandi, sem eru nú til sýnis og sölu í römmum í Galleríinu.

„Ég byrjaði á hestinum, fór að teikna hesta og gerði það í nokkur ár. Svo bættust bara fleiri og fleiri dýr við. Ég er alin upp í sveit og ég hugsa að húsdýrin séu hluti af því, þetta er auðvelt fyrir mig þó ég segi sjálf frá,“ segir Katrín.

Katrín hefur líka gert mikið af því að mála andlitsmyndir af fólki með góðum árangri. Hún segist alltaf byrja á því að teikna augun á dýrunum því þá sjái hún strax hvers konar karakter birtist á myndinni. Myndirnar hennar af húsdýrunum verða svo allar til sýnis á útisýningu á Hvolsvelli í sumar.

„Og kynna myndirnar sem fróðlegt fyrir leikskóla og bara skóla og ferðafólk að þetta séu íslensku húsdýrin okkar.“

Katrín hefur sérstaklega gaman af því að teikna húsdýr.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvaða húsdýr er í mestu uppáhaldi hjá Katrínu?

„Mér finnst þau öll skemmtileg en mér finnst mjög gaman að teikna kýr, og reyndar haninn, hann er svolítið skemmtilegur.“

Katrín gerir líka töluvert af því að teikna andlitismyndir af fólki, hér er ein þeirra.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×