Innlent

Vísbending um að lík sé fundið í Þingvallavatni

Eiður Þór Árnason skrifar
Umfangsmikil leit fer nú fram í og við Þingvallavatn.
Umfangsmikil leit fer nú fram í og við Þingvallavatn. Vísir/Bjarni

Kafarar sérsveitar ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar kafa nú í Þingvallavatni til að kanna með vísbendingu sem fékkst í sónarmynd frá Gavia-kafbát á vatninu.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að á sónarmyndinni sjáist myndform sem mögulega geti verið útlínur mannslíkama og þykir því nauðsynlegt að kanna málið nánar. Vegna þessa má búast við auknum aðgerðum á vatninu um tíma.

„Aðstandendur hafa verið upplýstir um stöðu mála og að atvik sem þessi muni koma upp á næstu dögum ef sónarmyndir gefa tilefni til þess að eitthvað sé skoðað nánar.“

Greint var frá því fyrr í dag að flak flug­vélarinnar TF-ABB, sem fannst á botni Þing­valla­vatns á föstudag, væri mjög heil­legt. Skoðun kafara í gær leiddi í ljós að enginn þeirra fjögurra farþega sem voru um borð í vélinni er inni í flakinu. 

Í kapphlaupi við tímann

Allt bendir til að flug­vélin hafi hafnað á Þing­valla­vatni áður en hún sökk og þeir fjórir sem voru um borð hafi komist út úr henni af sjálf­sdáðum eftir að hún endaði á vatninu.

Leit hófst að flug­manninum og þremur er­lendum ferða­mönnum, sem voru far­þegar hans, í birtingu í morgun. Fjöl­mennt lið lög­reglu- og björgunar­sveitar­fólks á­samt sér­að­gerða­sveit Land­helgis­gæslunnar tekur þátt í leitinni.

Leitar­fólk er í kapp­hlaupi við tímann þar sem ofsa­veðri er spáð á svæðinu og um land allt í nótt. Leitað er að fólkinu við vatnið, á því og á botni þess með kaf­báti.


Tengdar fréttir

Flak flug­­vélarinnar mjög heil­­legt á botni vatnsins

Flak flug­vélarinnar TF-ABB, sem fannst á botni Þing­valla­vatns á föstudag, er mjög heil­legt. Allt bendir til að flug­vélin hafi hafnað á Þing­valla­vatni áður en hún sökk og þeir fjórir sem voru um borð í henni hafi komist út úr henni af sjálf­sdáðum eftir að hún endaði á vatninu.

Leita í kappi við tímann með kaf­báti og drónum

Leit að þeim fjórum sem voru um borð í flug­vélinni sem fannst í Þing­valla­vatni hófst aftur í morgun. Leitað er á vatninu og við það og nú er sér­að­gerða­sveit Land­helgis­gæslunnar að mæta á svæðið til að leita í því með kaf­báti. Ofsa­veður skellur á við svæðið í nótt.

Enginn inni í flugvélaflakinu og leit hefst aftur á morgun

Enginn þeirra fjögurra farþega sem voru í flugvélinni sem fannst í Þingvallavatni eru nú inni í flakinu. Þetta leiddi kafbátaleit í ljós seinni partinn í dag. Svæðisstjórn björgunarsveita er byrjuð að skipuleggja áframhaldandi leit í og við vatnið á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×