Fótbolti

Ótrúleg endurkoma tryggði Kamerún bronsið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kamerún tryggði sér þriðja sæti Afríkumótsins í fótbolta með ótrúlegri endurkomu í kvöld.
Kamerún tryggði sér þriðja sæti Afríkumótsins í fótbolta með ótrúlegri endurkomu í kvöld. Visionhaus/Getty Images

Kamerún tryggði sér þriðja sæti Afríkumótsins í fótbolta með sigri gegn Búrkína Fasó í vítaspyrnukeppni í kvöld. Kamerún lenti 3-0 undir snemma í síðari hálfleik, en snéru leiknum við á lokamínútunum.

Steeve Yago skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Búrkína Fasó á 24. mínútu eftir stoðsendingu frá Issa Kabore.

Gestirnir fóru svo með 2-0 forystu inn í hálfleikinn eftir að Andre Onana varð fyrir því óláni að setja boltann í sitt eigið net á 43. mínútu leiksins.

Djibril Ouattara breytti stöðunni í 3-0 snemma í síðari hálfleik eftir undirbúning Bertrand Traore og brekkan því orðin ansi brött fyrir heimamenn.

Stephane Bahoken klóraði í bakkann fyrir heimamenn þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka og Vincent Aboubakar minnkaði muninn í 3-2 þegar um fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Aboubakar var svo aftur á ferðinni þegar hann jafnaði metin fyrir heimamenn á 88. mínútu og því var farið beint í vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnum sínum, en Ibrahim Blati Toure klikkaði á þriðju spyrnu Búrkína Fasó á meðan Karl Toko Ekambi skoraði úr sinni spyrnu fyrir Kamerún.

Bæði lið skoruðu úr sinni fjórðu spyrnu áður en Ambroise Oyongo Bitolo skoraði úr fimmtu spyrnu Kamerún og tryggði liðinu þar með þriðja sæti mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×