Skoðun

Markviss uppbygging íbúðarhúsnæðis greiðir fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu

Sara Björg Sigurðardóttir skrifar

Ekkert sveitarfélag á landinu hefur lagt jafn mikla áherslu á að skapa umgjörð fyrir uppbyggingu óhagnaðardrifis húsnæðis fyrir jafn fjölbreytta hópa eins og Reykjavík. Meirihlutinn í borginni hefur leitt þær breytingar á meðan sveitarfélögin í Kraganum hafa varla lyft litla fingri í húsnæðismálum.

Á liðnum árum hafa verið byggðar 2.500 - 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir, 600 íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur og leigueiningum Félagsbústaða hefur verið fjölgað um 600.

Þannig hefur Samfylkingin síðustu þrjú kjörtímabil, og meirihlutinn í Reykjavík, unnið markvisst að því að tryggja fjölbreytt framboð húsnæðis fyrir alla hópa samfélagsins. Blönduð byggð með félagslegum fjölbreytileika innan hverfa borgarinnar er tryggð í Húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og Aðalskipulagi borgarinnar til 2040. Þar er miðað við að 25% íbúða í hverfum borgarinnar verði í blandaðri byggð íbúða eins og leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir, félagslegar leiguíbúðir, íbúðir fyrir aldraða eða húsnæði fyrir fatlað fólk. Þúsundir slíkra íbúða hafa risið á undanförnum árum og þannig höfum við tryggt meira jafnræði á húsnæðismarkaði.

Pólitísk ákvörðun

Til að stuðla að heilbrigðri húsnæðismarkaði hefur verið ákveðið að stefna að enn frekar uppbyggingu á næstu tíu árum með 2.500 - 3.000 nýjum íbúðum ofan á það sem nú þegar hefur verið byggt. Það er pólitísk ákvörðun að velja uppbyggingu með óhagnaðardrifnum aðilum.

Það er margt framundan í húsnæðismálum í Reykjavík en á myndinni má sjá samþykkt byggingarleyfi fyrir fjölda íbúða eftir árum. Ekki verður um villst að við erum á stödd á stærsta og lengsta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar.

Talað í kross

Á liðnu kjörtímabili hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 16.000. Þar af Reykvíkingum um 7.500. Með hverjum 4.000 nýjum íbúum fylgja um 3.000 bílar. Þetta þýðir að á einu kjörtímabili hafa bæst við 12.000 bílar á höfuðborgarsvæðinu. Margir íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur sækja vinnu eða skóla til borgarinnar og hefur þessi bílaaukning því sín áhrif á umferðarþunga í borginni.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir, kallað eftir því í grein í vikunni að byggt verði í landi Keldna og í Örfirisey. Það er engu líkara en að hún hafi misst af því að ríkið á Keldnaland og hefur ekki aðeins lagt það til Betri samgangna, sem er sameiginlegt fyrirtæki ríkis, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar Hafnarfjarðarkaupstaðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar, heldur líka lagt á það áherslu að svæðið verði þróað fyrir byggð samhliða uppbyggingu Borgarlínu.

Ástæðan fyrir þessari röð framkvæmda er ósköp einföld. Hvorki Ártúnsbrekka né Miklabraut þolir fleiri bíla í dag, hvað þá þann fjölda sem fylgir byggð á Keldnum. Milli 3.000-4.000 viðbótar bílar færu daglega um Ártúnsbrekku ef farið væri strax í nýja byggð í Keldnalandi eins og Hildur og Sjálfstæðisflokkurinn í borginni sjá fyrir sér. Hitt er svo annað mál að það verður byggt í Keldnalandi þegar þar að kemur enda gerir uppbygging Borgarlínu beinlínis ráð fyrir því.

Margklofinn Sjálfstæðisflokkur

Það er óneitanlega furðulegt að horfa upp á hversu borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er margklofinn í afstöðu sinni til Borgarlínu. Hann greiðir ýmist atkvæði með henni eða á móti og enginn veit hver stefna flokksins er á hverjum tíma. Á meðan Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkið með fullan stuðning úr ríkisstjórn, stýrt úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu, standa saman um Borgarlínu, stendur Sjálfstæðisflokkurinn í borginni eins og eyland, yfirgefinn og óstjórntækur. Ódýr eru kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í borginni sem þarf samhliða að upplýsa kjósendur sína um að tafatíminn í umferðinni mun ekki lagast með 4.000 fleiri bílum, heldur þvert á móti munu nýir íbúar Keldnalands sitja fastir í umferðinni. Horfum á heildarmyndina. Þegar Borgarlína mætir upp í Keldnaholt skapast grundvöllur til að byggja upp Keldnaland til framtíðar. Fyrr er það í senn ótímabært og óskynsamlegt.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingar, varamaður í samgöngu - og skipulagsráði, formaður íbúaráðsins í Breiðholti og sækist eftir 4.- 6. sæti í flokksvali sem fer fram 12.-13. febrúar nk.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×