Sport

Er til land með betra nafn fyrir Vetrarólympíuleika?

Sindri Sverrisson skrifar
Kristrún Guðnadóttir og Sturla Snær Snorrason voru fánaberar Íslands á setningarathöfn Vetrarólympíuleikanna í Peking í dag.
Kristrún Guðnadóttir og Sturla Snær Snorrason voru fánaberar Íslands á setningarathöfn Vetrarólympíuleikanna í Peking í dag. AP/David J. Phillip

Það var létt yfir Íslendingunum og þeir tóku nokkur spor þegar þeir gengu inn á Þjóðarleikvanginn í Peking á setningarathöfn Vetrarólympíuleikanna í dag.

Ísland á fimm keppendur á leikunum en það kom í hlut þeirra skíðagöngukonunnar Kristrúnar Guðnadóttur og alpagreinamannsins Sturlu Snæs Snorrasonar að bera íslenska fánann inn á hátíðina.

Hér að neðan má sjá þegar íslenski hópurinn gekk inn á leikvanginn. Lýsendur Eurosport höfðu gaman af „drottningarlegu“ veifi eins af Íslendingunum og veltu því fyrir sér hvort að það gæti nokkuð verið til land með nafn sem passar betur við Vetrarólympíuleika en Ísland.

Snorri Einarsson keppir fyrstur Íslendinganna í Peking, í 30 km skíðagöngu á sunnudaginn klukkan 7 um morgun að íslenskum tíma. Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppir svo í stórsvigi aðfaranótt 7. febrúar og Isak Stianson Pedersen og Kristrún í sprettgöngu að morgni 8. febrúar. Fyrsta grein Sturlu er stórsvig aðfaranótt 13. febrúar.

Keppendur Íslands í Peking:

  • Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, alpagreinar kvenna – svig, stórsvig og risasvig
  • Sturla Snær Snorrason, alpagreinar karla – svig og stórsvig
  • Kristrún Guðnadóttir, skíðaganga kvenna – sprettganga
  • Snorri Einarsson, skíðaganga karla – 15km F (frjáls aðferð), 30km skiptiganga, 50km C Mst (fjöldastart, hefðbundin aðferð), liðakeppni í sprettgöngu
  • Isak Stianson Pedersen, skíðaganga karla – sprettganga og liðakeppni í sprettgöngu

Alls er 91 þjóð með keppendur á leikunum og er 2.871 keppandi skráður til keppni, þar af 1.581 karl og 1.290 konur. Þau keppa í 109 greinum í sjö ólíkum íþróttum, næstu sextán daga.

Hér að neðan má sjá setningarathöfnina frá Peking í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×