Enski boltinn

De Gea fyrsti markvörður United sem er valinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David de Gea hefur að öðrum ólöstuðum verið besti leikmaður Manchester United á tímabilinu.
David de Gea hefur að öðrum ólöstuðum verið besti leikmaður Manchester United á tímabilinu. getty/Visionhaus

David de Gea, markvörður Manchester United, var valinn leikmaður janúar-mánaðar í ensku úrvalsdeildinni. Hann er fyrsti markvörðurinn í sex ár sem fær þessa viðurkenningu.

De Gea lék einkar vel í marki United sem vann reyndar bara tvo af fjórum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í janúar, gerði eitt jafntefli og tapaði einum. Spánverjinn varði alls 22 skot í leikjunum fjórum.

Sex ár eru síðan markvörður var valinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. Það var í febrúar 2016 en þá var Fraser Forster, markvörður Southampton, valinn leikmaður mánaðarins.

Þetta er í fyrsta sinn sem De Gea fær þessa viðurkenningu en hann hefur spilað með United síðan 2011.

Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem markvörður United er valinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. Þótt ótrúlegt megi virðast fengu Peter Schmeichel og Edwin van der Saar þessa viðurkenningu aldrei.

Auk De Geas voru Jarrod Bowen (West Ham United), Kevin De Bruyne (Man. City), Jack Harrison (Leeds United), Joao Moutinho (Wolves) og James Ward-Prowse (Southampton) tilnefndir sem leikmaður janúar-mánaðar í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×