„Ég brenn fyrir borg sem rúmar fjölbreytta flóru einstaklinga – opnu og frjálsu samfélagi sem tekur stór skref í átt að raunverulegum aðgerðum í loftslagsmálum, húsnæðismálum, skipulagsmálum, skóla- og velferðarmálum,” segir Þórdís Lóa, en prófkjörið verður haldið dagana 4. - 5. mars næstkomandi þar sem kosið verður um fjögur efstu sætin á framboðslista flokksins.
Framboðsfrestur rennur út á hádegi, 17. febrúar. Borgarfulltrúinn Pawel Bartoszek sækist svo eftir öðru sæti í prófkjöri Viðreisnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Pawel var í öðru sæti á lista flokksins fyrir síðustu kosningar.
„Öll mín hugsjón miðar að endingu að lifandi og skemmtilegri borg. Þessi mál vil ég nálgast með jafnrétti og mannréttindi að leiðarljósi, fyrir mér er það aldrei kvöð og kostnaður fyrir samfélagið, heldur tækifæri og alvöru fjárfesting,” segir Þórdís Lóa.
Þórdís Lóa hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, af hagsmunabaráttu og stjórnun stærri og minni fyrirtækja ásamt því að hafa í áratug stýrt velferðarþjónustu í Reykjavík.
„Þetta kjörtímabil hef ég leitt starf Viðreisnar í borginni og lagt mig fram við að skoða ólík sjónarmið til að komast að farsælum lausnum. Framtíðin leynist í samvinnu margra flokka, og ég bý yfir yfirsýninni sem þarf til að sú samvinna beri árangur. Með þá þekkingu og reynslu í farteskinu langar mig að byggja frjálst og réttlátt borgarsamfélag. Þess vegna býð ég fram krafta mína í komandi sveitarstjórnarkosningar,” segir hún.