Innlent

Lög­regla sökuð um að hafa borið púður­leifar á grunaðan í Rauða­gerðis­málinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maðurinn var handtekinn morguninn eftir að Armando Bequirai var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði.
Maðurinn var handtekinn morguninn eftir að Armando Bequirai var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði.

Litháískur ríkisborgari hefur kvartað til nefndar um eftirlit með lögreglu og krefst rannsóknar á því hvort lögregla hafi gerst brotleg þegar hann var handtekinn og síðar dæmdur í gæsluvarðahald í kjölfar morðsins í Rauðagerði.

Frá þessu greinir Fréttablaðið.

Maðurinn var handtekinn daginn eftir að Armando Bequirai var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt og úrskurðaður í gæsluvarðhald þar sem púðurleifar fundust á höndum mannsins. 

Maðurinn sagðist við yfirheyrslur ekki tengjast málinu og að hann hefði verið í vélsleðaferð norður í landi þegar morðið átti sér stað. Þrátt fyrir þetta krafðist lögregla þess að hann sætti gæsluvarðhaldseinangrun vegna rannsóknar málsins, vegna púðurleifanna.

Um það bil mánuði eftir að manninum var sleppt var tekin skýrsla af sérsveitarmönnum til að reyna að komast til botns í því hvers vegna púðurleifar fundust á höndum mannsins. Samkvæmt skýrslu lögreglu var talið mögulegt að púðurleifarnar hefðu smitast af sérsveitarmönnum og yfir á litháíska manninn. 

Lögmaður mannsins krefst rannsóknar á því hvort sérsveitarmennirnir sem handtóku hann hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi. Þá krefst maðurinn tíu milljóna króna í bætur.

Ítarlega er fjallað um málið á vef Fréttablaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×