Erlent

For­seti Gíneu-Bissaú segir marga látna eftir til­raun til valda­ráns

Atli Ísleifsson skrifar
Umaro Sissoco Embaló var kjörinn forseti Gíneu-Bissaú árið 2019.
Umaro Sissoco Embaló var kjörinn forseti Gíneu-Bissaú árið 2019. AP

Umaro Cissoko Embaló, forseti Afríkuríkisins Gíneu-Bissaú, segir marga liðsmenn öryggissveita landsins látna eftir tilraun hóps manna til valdaráns í gær. Embaló segir að búið sé að tryggja öryggi í landinu á ný eftir það sem hann kallar „misheppnaða árás á lýðræðið“.

BBC segir frá því að skothríð hafi brotist út nærri byggingu ríkisstjórnar landsins í höfuðborginni Bissaú á þeim tíma þar sem forsetinn sat ríkisstjórnarfund ásamt forsætisráðherranum Nuno Gomes Nabiam og fleiri ráðherrum.

Segir að hópur vopnaðra manna, í borgaralegum klæðum, hafi ráðist á bygginguna og hafi lögreglumaður þar verið drepinn. Hermönnum hafi þó tekist að bjarga helstu ráðamönnum landsins frá árásarmönnunum.

Enn er margt á huldu varðandi framvinduna, þar með talið hvað árásarmennirnir hafi verið margir og sömuleiðis hvað margir hafi látið lífið í átökunum.

Umaro Sissoco Embaló var kjörinn forseti Gíneu-Bissaú árið 2019.

Gínea-Bissaú er eitt fátækasta ríki heims, er fyrrverandi portúgölsk nýlenda, og hafa verið gerð níu valdarán eða tilraunir til valdaráns í landinu frá árinu 1980.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×