Skoðun

Val­frelsi eykur hamingju

Svavar Halldórsson skrifar

Á Íslandi eru starfandi nærri fimmtíu sjálfstætt reknir skólar. Flestir eru leikskólarnir en grunnskólarnir eru einnig þónokkrir. Nemendafjöldinn nemur þúsundum og þeir eru víða um landið. Allir þessir skólar eiga það sameiginlegt að í þeim vinnur her manns alla daga að því að mennta börnin okkar um leið og gætt er að því að öllum líði sem best. Glöð börn eru betri nemendur.

Skólastarf á Íslandi er til fyrirmyndar

Óeigingjarnt starf þessa stóra hóps hefur skipt sköpum í lífi margra barna og fjölskyldna. Þetta mikla og góða starf verður seint fullþakkað. Að sjálfsögðu er einnig unnið gott starf í skólum sem reknir eru af hinu opinbera, enda er skólastarf á Íslandi heilt á litið til fyrirmyndar. Kennarar, skólaliðar, stjórnendur og aðrir starfsmenn leggja nótt við nýtan dag til að ná árangri. Allt þetta fólk á hrós skilið.

Göfug markmið

Allir eru sammála um að stefna að því göfuga markmiði að gera börnin okkar að góðum og nýtum þjóðfélagsþegnum. Góðir skólar eru mannbætandi. Þeir gera samfélagið okkar miklu betra. Vissulega er margt sem má bæta en alls staðar er fólk að gera sitt besta. Ígrundaðar tilraunir með mismunandi form og stefnur auka verulega líkurnar á bestu lausnirnar finnist fyrir hvert og eitt barn.

Fegurðin í fjölbreytileikanum

Fjölbreytileiki í skólastarfi skiptir miklu máli. Fjölskyldur eru ólíkar og börnin líka. Ef foreldrar geta valið hentugustu skólana fyrir börnin sín er líklegt að hamingja og gleði aukist. Glöð börn eru betri námsmenn. Valfrelsið er lykilþáttur í því að auka heildargæði skólastarfs í landinu og hámarka vellíðan og hamingju íslenskra barna. Háleitari geta markmið varla verið.

Gleði, kærleikur og umburðarlyndi

Góðir skólar skila borgurum sem geta breitt út hagsæld, gleði, kærleik og umburðarlyndi. Það viljum við öll en þetta er ekki sjálfsagður hlutur. Við verðum öll að standa vörð um valfrelsi og grósku í skólastarfi á Íslandi. Þannig náum við bestum árangri í bæði leik og starfi. Valfrelsi er ein af grunnstoðum hins frjálsa lýðræðisþjóðfélags sem við erum svo stolt af.

Höfundur situr í stjórn Hjallastefnunnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×