Erlent

Goldberg vekur reiði með ummælum um Helförina

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Goldberg hlaut Óskarsverðlaunin fyrir hlutverk sitt í Ghost.
Goldberg hlaut Óskarsverðlaunin fyrir hlutverk sitt í Ghost. epa/Paul Buck

Leikkonan og sjónvarpsþáttastjórnandinn Whoopi Goldberg hefur vakið mikla reiði í Bandaríkjunum með því að staðhæfa í spjallþættinum The View á ABC að Helförin hefði ekki snúist um ólíka kynþætti.

Til umræðu var bann skólayfirvalda í Tennessee á bókunum Maus, þar sem gyðingar eru mýs og nasistar kettir. Bækurnar hafa unnið til fjölda verðlauna en voru bannaðar sökum blótsyrða, nektar og sjálfsvíga, sem yfirvöldum þykja ekki við hæfi 13 ára unglinga.

Goldberg sagði í spjalli við aðra þáttastjórnendur að það kæmi henni á óvart að nekt væri orsök þess að bækurnar væru bannaðar, ekki sú staðreynd að þær fjölluðu um morðið á sex milljónum einstaklinga.

„Ef við ætlum að gera þetta, segjum þá satt. Því Helförin snérist ekki um kynþætti. Nei, hún snérist ekki um kynþátt,“ sagði Goldberg.

Joy Behar, meðstjórnandi Goldberg, benti hins vegar á að nasistarnir hefðu haldið því fram að gyðingar væru annar kynþáttur. Goldberg gaf hins vegar ekki eftir og sagði Helförina ekki hafa snúist um kynþætti heldur um grimmd mannsins gegn öðrum mönnum.

„En þetta snérist um hvíta kynþáttahyggju,“ sagði þá Ana Navarro, annar meðstjórnandi Goldberg. „Þetta snérist um ofsóknir á hendur gyðingum og sígaunum og Rómafólki,“ sagði hún.

Goldberg svaraði þá með því að segja að um væri að ræða átök tveggja hvítra hópa.

Ummæli Goldberg voru harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum, þar sem leikkonunni var meðal annars bent á að nasistar hefðu sannarlega haldið því fram að gyðingar væru annar og óæðri kynþáttur.

Goldberg baðst í kjölfarið afsökunar og sagðist hefðu átt að segja að Helförin hefði bæði snúist um kynþætti og grimmd mannsins gegn öðrum mönnum. Gyðingar hefðu ávallt átt stuðningsmann í henni og myndu eiga áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×