Þetta kemur fram í greiningu Meniga á stöðu og helstu breytingum í einkaneyslu samfélagsins á milli áranna 2020 og 2021.
Á matvörumarkaði skipuðu fyrirtækin heimkaup.is og Eldum rétt sér í fyrsta sinn á lista yfir þau tíu íslensku fyrirtæki sem hafa hæstu markaðshlutdeild matarinnkaupa. 3,9 prósent aukning var í heildarveltu á matvörumarkaði almennt á milli ára.
Skyndibitastaðir langstærstir á veitingamarkaði
Töluverð aukning var á heildarveltu á veitingamarkaði sem Meniga skráir árið 2021 frá árinu áður, eða 17,9 prósent.
Domino’s er með mestu markaðshlutdeildina á veitingamarkaði eða 7,2 prósent sé rýnt í gögn Meniga og KFC fylgir á eftir með 4,8 prósent hlutdeild. Subway er með 2,2 prósent hlutdeild en á eftir Subway með 1,1 til 1,6 prósent hlutdeild eru Bakarameistarinn, Pizzan, Hamborgarafabrikkan, Serrano, Tokyo Sushi, Hlöllabátar og Te og Kaffi.
Veitingamarkaðurinn velti tæplega 16 milljörðum í fyrra í samantekt Meniga. Inn í þeim tölum eru allir veitingastaðir, skyndibitastaðir, bakarí, kaffihús, ísbúðir og hvers kyns veitingasala á landinu sem Meniga skráir og heldur utan um.
Kröftug innreið Boozt sem er meðal þeirra stærstu
Í flokknum föt og fylgihlutir náði netrisinn Boozt inn á lista þeirra fimm fyrirtækja sem hafa mestu markaðshlutdeildina þrátt fyrir að hafa aðeins verið með starfsemi á landinu í tæpt hálft ár. Boozt hafði 4,3 prósent markaðshlutdeild í fyrra og náði þar fram úr alþjóðlega tískurisanum Zara.
H&M er með mestu markaðshlutdeildina á þessum markaði, eða 7 prósent og annað sætið vermir verslunin Lindex.