Sport

Metaregn hjá Matthildi á RIG um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthildur Óskarsdóttir byrjar nýja árið frábærlega.
Matthildur Óskarsdóttir byrjar nýja árið frábærlega. Instagram/@matthilduroskarsdottir

Matthildur Óskarsdóttir lofaði því þegar hún var valin Íþróttakona Seltjarnarness fyrir árið 2021 að 2022 yrði alveg geggjað ár. Hún er strax byrjuð að standa við þau stóru orð.

Matthildur fór nefnilega á kostum í Kraftlyftingakeppni Reykjavíkurleikanna í Laugardalshöllinni í gær.

Uppskera Matthildar voru 26 met, átján Íslandsmet unglinga, fjögur Íslandsmet fullorðinna, tvö Norðurlandamet unglinga og tvö Evrópumet unglinga.

Matthildur tvíbætti Evrópumet unglinga í bekkpressu, fyrst með því að lyfta 120 kílóum og svo með því að fara upp með 122,5 kíló. Matthildur keppir í mínus 84 kílóa flokki.

Hún setti Evrópumetin og Norðurlandametin í bekkpressunni en þar var hún einnig með Íslandsmet fullorðinna. Matthildur var þar að bæta sig um fimm kíló.

Hún bætti sig um níu kíló í í hnébeygju og setti Íslandsmet unglinga með því að lyfta 150 kílóum.

Hún bætti sig um fimmtán kíló í réttstöðulyftu og setti Íslandsmet unglinga með því að fara upp með 165 kíló.

Það þýddi að Matthildur lyfti alls 437,5 kílóum sem er 52 kílóa bæting hjá henni og nýtt Íslandsmet unglinga.

„Gaman að stíga aftur á keppnispallinn í þrílyftunni eftir að hafa ekki æft það að viti seinasta 2,5 árið,“ skrifaði Matthildur í samantekt á Instagrím síðunni sinni.

Fjöldi annarra alþjóðlegra meta voru slegin á mótinu. Kimberly Walford tvíbætti heimsmetið í Master 1 í hnébeygju, fyrst með því að lyfta 187,5 kílóum og svo með því að lyfta 192,5 kílóum. Einnig tvíbætti Kimberly heimsmetið í Master 1 í samanlögðu en hún endaði með því að lyfta samanlagt 547,5 kílóum.

Elsa Pálsdóttir sló síðan þrjú heimsmet í Master 3. Hún lyfti 137,5 kílóum í hnébeygju, 162,5 kílóum í réttstöðulyftu og var samanlagt með 362,5 kíló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×