Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent í janúar á þessu ári og mælist tólf mánaða verðbólga því 5,7 prósent. Hefur árstaktur verðbólgunnar ekki verið meiri frá því í apríl árið 2012.
Hækkunin var langt umfram spár greinenda en þær höfðu að meðaltali gert ráð fyrir því að vísitala neysluverðs myndi lækka í janúar um 0,15 til 0,2 prósent. Það hefði þýtt að tólf mánaða verðbólgan færi undir 5 prósent.
Á síðustu tíu árum hefur verðlag lækkað um 0,35 prósentu að meðaltali í janúar og því er 0,5 prósentu hækkun töluvert frávik.
„Allt síðasta ár einkenndist af hærri mælingum en í venjulegu árferði en þetta er nærri tvöfalt hærra frávik en við sáum þegar hvað verst lét í fyrra. Það er frekar slæm byrjun á árinu,“ segir Birgir.
Annað áhyggjuefni fyrir Seðlabankans er hækkun á innlendu verðlagi fyrir utan húsnæði. Samkvæmt janúarmælingu Hagstofunnar er hækkunin á ársgrundvelli komin upp í nærri 5 prósent.
„Það gefur til kynna að undirliggjandi verðbólguþrýstingur er orðinn umtalsverður og langt umfram 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans,“ segir Birgir. „Þetta ætti klárlega að valda Seðlabankanum miklum áhyggjum og er alls ekki lengur hægt að tala um að verðbólgan sé eingöngu drifin áfram af húsnæðismarkaðnum.“
Væntingar um bratt vaxtahækkunarferli hér á landi komu skýrt fram í hækkun ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á styttri endanum. Krafa RIKB23 hefur hækkað um 30 punkta það sem af er degi.
Breyttur tónn í peningastefnunefnd
Víðast hvar í heiminum hefur tónninn í seðlabönkum harðnað og fyrr í þessari viku boðaði bandaríski seðlabankinn brattar vaxtahækkanir. Jay Powell seðlabankastjóri sagði töluvert svigrúm til að hækka vexti án þess að ógna atvinnustigi.
Í þessu samhengi bendir Birgir á að allt frá því í maí á síðasta ári, þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtahækkunarferlið með 0,25 prósenta hækkun á stýrivöxtum, hafi að minnsta kosti einn nefndarmaður kosið að hækka vexti um 0,50 prósentur. Í ágúst hafi tveir nefndarmenn talað fyrir slíkri hækkun og í nóvember hafi öll peningastefnunefndin að lokum verið sammála um að hækka vexti um 0,5 prósentur.
Það er alls ekki lengur hægt að tala um að verðbólgan sé eingöngu drifin áfram af húsnæðismarkaðnum
„Með hliðsjón af þessu öllu og þar sem að næsti fundur nefndarinnar eftir febrúar er ekki fyrr en í byrjun maí mánaðar þá er alls ekki hægt að útiloka að stýrivextir verði hækkaðir um 1,0 prósentur í einu stökki eftir tæplega tvær vikur,“ segir Birgir.
Stýrivextir standa í 2 prósentum. Fari svo að Seðlabankinn hækki vexti um 1 prósentu verður vaxtastig komið á sama stað og það var í janúar 2020, rétt áður en kórónuveiran skall með fullum þunga á íslenska hagkerfið.
Innherji hefur að undanförnu greint frá því að stærstu heildsölur landsins hafi ekki séð eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa gengið yfir á síðustu vikum. Fyrirtækin koma litlum vörnum við og telja að hækkanir frá erlendum framleiðendum og birgjum eigi eftir að seytla inn í smásöluverð á næstu mánuðum.
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri heildverslunarinnar Innnes, sagði meðal annars við Innherja að búast mætti við verulegum hækkunum á verðlagi eftir því sem áhrif hækkana frá erlendum birgjum brjótast fram á smásölumarkaði. Honum kæmi ekki á óvart ef verð innfluttra vara myndi hækka um 10 til 12 prósent á næstu mánuðum.
„Við höfum aðeins séð toppinn á ísjakanum,“ sagði Magnús Óli.