Erlent

Fara fram á kviðdóm í máli Andrésar

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Andrés afsalaði fyrr í mánuðinum titlum sínum innan konungsfjölskyldunnar vegna málsins. 
Andrés afsalaði fyrr í mánuðinum titlum sínum innan konungsfjölskyldunnar vegna málsins.  Getty/Steve Parsons

Lögmenn Andrésar prins hafa farið fram á að kviðdómur verði viðstaddur í réttarhöldunum yfir prinsinum í Bandaríkjunum þar sem ásakanir Virginiu Giuffre um nauðgun verða teknar fyrir.

Giuffre steig upprunalega fram árið 2019 og greindi frá því að Jeffrey Epstein hafi skipað sér að stunda kynlíf með valdamiklum mönnum þegar hún var aðeins sautján ára gömul. Sakaði hún Andrés um að brjóta á henni á heimili Epstein og Ghislaine Maxwell árið 2001.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið lögðu lögmenn Andrésar fram ellefu blaðsíðna skjal fyrir dóminn í dag þar sem farið var fram á réttarhöld með kviðdómi. Þar kom sömuleiðis fram að prinsinn kannist við að hafa hitt Jeffrey Epstein í kringum árið 1999 en að hann neiti að hafa tekið þátt í hvers kyns ofbeldi með honum.

Andrés hefur ítrekað neitað sök en Giuffre lagði fram kæru í New York ríki síðastliðinn ágúst. Lögmenn Andrésar gerðu ítrekaðar tilraunir til að fá málinu vísað frá og færðu ýmis rök fyrir því.

Meðal annars var það nefnt að Giuffre hafi gert samkomulag við Epstein um aðfalla frá málaferlum vegna kynferðisofbeldis og kynlífsþrælkunar sem hún sakaði hann um að hafa beitt sig. Átti það samkomulag einnig að ná til annarra mögulegra sakborninga í málinu.

Dómari í New York féllst þó ekki á beiðni lögmannanna og fyrr í mánuðinum var ljóst að prinsinn þyrfti að svara til saka fyrir meint kynferðisbrot.


Tengdar fréttir

Andrés missir titla sína

Andrés prins hefur afsalað sér titlum sínum vegna ásakana gegn honum um kynferðisbrot. Um er að ræða titla hans innan hersins og konungsfjölskyldunnar og mun hann ekki koma að opinberum viðburðum en þessi ákvörðun var tekin með samþykki Elísabetar drottningar, móður Andrésar.

Lögmaður Giuffre segir hana ekki munu sætta sig við fjárhagslega sátt

Virginia Giuffre mun að öllum líkindum ekki sætt sig við sátt í málinu gegn Andrési Bretaprins ef hún felur aðeins í sér fjárhagslegar skaðabætur. Lögmaður Giuffre segir hana vilja að sannleikurinn verði leiddur í ljós, fyrir sig og aðra þolendur Jeffrey Epstein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×