Heimsmarkmiðin

Aukinn stuðningur Íslands við heimaræktaðar skólamáltíðir í Malaví

Heimsljós
Gunnisal

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) lýsti í gær ánægju sinni með framlag frá Íslandi um frekari stuðning við skólamáltíðir í Malaví. Að sögn Ingu Dóru Pétursdóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Lilongwe var Ísland fyrsta þjóðin til að styðja við heimaræktaðar skólamáltíðir í Malaví árið 2012.

 „Það reyndist svo vel að WFP hyggst innleiða þá aðferð í nánast öllum samstarfslöndum sínum,“ segir Inga Dóra.

Framlag Íslands nemur 1,7 milljónum bandarískra dala, rúmlega 220 milljónum íslenskra króna, og felur í sér stuðning um að efla heimaræktaðar skólamáltíðir í Mangochi héraði næstu þrjú árin.

„Framlagið viðheldur og eykur aðgengi að menntun með því að veita næringarríkar skólamáltíðir fyrir þrettán þúsund börn. Maturinn kemur frá fimmtán hundruð bændum í héraðinu sem einnig njóta góðs af verkefninu, öðlast aukna færni í framleiðslu, meðhöndlun og markaðssetningu uppskerunnar,“ segir í frétt WFP.

Haft er eftir Paul Turnbull umdæmisstjóra WFP að skólamáltíðir stuðli að betri næringu barnanna, betri heilsu og hvetji þau til náms. „Við hrósum ríkisstjórn Íslands fyrir traustan stuðning við hugmyndafræðina um heimaræktaðar skólamáltíðir sem styrkir einnig efnahag Malaví og alla fæðuvirðiskeðjuna.“

„Ísland er mjög ánægt með áframhaldandi og öflugt samstarf við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna og ríkisstjórn Malaví,“ segir Inga Dóra í frétt WFP. „Dagleg næringarrík skólamáltíð er sterk hvatning til foreldra að senda börn í skóla og hvatning til að góðrar mætingar. Heimaræktaðar skólamáltíðir styðja við það hvetjandi námsumhverfi sem við viljum skapa í skólunum sem Ísland styður í Mangochi,“ segir hún.

WFP segir í frétt sinni að alþjóðlegar rannsóknir sýni að skólamáltíðir hafa bæði skammtíma og langtímaáhrif til góðs, hver króna skili sér tuttugufalt til baka í fjárfestingu með meiri mannauði og sterkara hagkerfi. Samkvæmt könnun í Malaví fyrir þremur árum drógu skólamáltíðir úr fjarvist nemenda um fimm prósent og ári áður sýndi könnun að skólamáltíðir bættu skólasókn úr 77 prósentum í 92 prósent.

Inga Dóra segir í samtali við Heimsljós að nýsköpun sé stór hluti af verkefninu með WFP og áhersla verði lögð á að skapa atvinnutækifæri fyrir konur og ungmenni með því að þróa nýjar ræktunarleiðir og geymsluaðferðir meðal bænda í nágrenni skólanna.


Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×