Skoðun

Inga Sæland, ástir og örlög

Sigríður Jónsdóttir skrifar

Síðastliðið ár hefur alþingismaðurinn Inga Sæland, hamast gegn einni starfsgrein í íslenskum landbúnaði, sem kallast blóðmerahald. Statt og stöðugt heldur hún því fram að níðst sé á hryssunum í þessum búskap, þær séu svo villtar og hræddar við fólk. Þetta ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum, nóg hafa lætin í fjölmiðlunum verið. Það sem Inga hefur talið sig vita um málefnið er meira og minna tóm vitleysa. Hún hefur reynst ófær um að kynna sér málið en málflutningur hennar alfarið rímað við ríkjandi ranghugmyndir veganista. Síðast þegar ég vissi var Inga Sæland ekki vegan. Hún var úti í búð að kaupa sér kótelettur. Hvað er það þá sem veldur því að manneskjan lætur svona? Þessu hef ég velt fyrir mér, því ég er ein þeirra fjölmörgu sem Inga Sæland vænir um saknæmt athæfi gagnvart skepnum. Elskar hún dýrin svona mikið? Hvers vegna hugsar hún þá bara um blóðmerar en ekki aðrar skepnur í umsjá manna hérlendis? Þetta var mér ráðgáta þar til lítill hrossagaukur í Hrútafirði hvíslaði því að mér að rót málsins sé samband Ingu sjálfrar við mann sem kallaður er Halldór í Holti.

Halldór Gunnarsson var sóknarprestur í Holti undir Eyjafjöllum. Hann er Sjálfstæðismaður af gamla skólanum en sagði sig úr flokknum nokkru eftir hrunið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði gengið auðvaldinu á hönd. Fyrir Alþingiskosningar árið 2013 stofnuðu Halldór og fleira fólk Flokk heimilanna en náðu ekki þingsæti. Sá flokkur mætti örlögum sínum þegar tveir strákar komust yfir fjármuni flokksins, sem var ríkisframlagið, og eyddu þeim í sjálfa sig. En Halldór gamli gafst ekki upp við þessa tilraun til nýsköpunar í stjórnmálum. Fátækt fólk og öryrkjar voru reist úr öskustó og Flokkur fólksins var stofnaður vorið 2016. Inga Sæland varð formaður, Halldór Gunnarsson var varaformaður. Flokkurinn kom fjórum mönnum á þing haustið 2017 og Inga Sæland var drottningin.

Í upphafi mun Inga hafa haft litla reynslu af fjármálum og félagsmálum en hún gerðist engu að síður prókúruhafi flokksins, ásamt því að vera formaður. Sonur hennar var gerður að framkvæmdastjóra. Í febrúar 2019 skýrði Halldór frá því í grein í Morgunblaðinu að tilteknum flokksfélögum hefði ofboðið siðleysi Ingu Sæland þegar hún vildi hafna móttöku hækkaðra fjárframlaga til stjórnmálaflokka en samtímis þiggja þá fjármuni fyrir hönd Flokks fólksins. Þessum mönnum var vikið úr flokknum. Inga þurfti ekki að reka Halldór því hann fór sjálfur.

Hreinsanirnar í Flokki fólksins hafa reynst áhrifaríkar. Á heimasíðu flokksins er saga hans nú skráð svona: „Inga Sæland, formaður og stofnandi flokksins, er í forystusæti listans. Inga stofnaði Flokk fólksins árið 2016 og hefur verið þingmaður hans frá árinu 2017.“ Inga Sæland stofnaði flokkinn ein og sjálf, enginn kom að því nema Inga Sæland og Inga Sæland er aðal.

Hvað kemur þessi pólitíska ástarsaga og skilnaður Ingu Sæland og Halldórs í Holti meintu dýraníði merabænda við? Jú, Halldór í Holti var framkvæmdastjóri Félags hrossabænda í 20 ár. Hann var frumkvöðull í blóðmerahaldi hér á landi og hefur verið viðloðandi þá búgrein öll þau 40 ár sem hún hefur verið stunduð. Vinnandi fólk á 119 bæjum víðs vegar um landið verður fyrir barðinu á Ingu Sæland þegar hún öskrar DÝRANÍÐ. En hún er líklega ekki að öskra á okkur. Hún er að öskra á Halldór í Holti.

Yfirlýst markmið Flokks fólksins eru að útrýma fátækt og berjast gegn spillingu. Nú leggur formaður flokksins fram frumvarp í annað sinn um að banna blóðmerahald, heila búgrein í landbúnaði. Þeir sem landbúnað stunda eru langflestir mjög lágt launaðir og bera lítið úr býtum. Ætlar Flokkur fólksins að útrýma fátækt með því að útrýma fátækum og byrjar á heimilum nokkurra bænda, sem enn hjara í hnignandi byggðum landsins? Mér finnst það ósennilegt. Mér finnst sennilegra að hér ráði bara venjuleg spilling og hefnigirni för.

Ég veit ekki hver örlög Ingu Sæland verða. Hún á eftir að skapa sér þau sjálf.

Höfundur er sjálfstæður rannsakandi óheilinda og illsku.


Tengdar fréttir

Opið bréf til Ingu Sæ­land

Sæl frú Inga Sæland. Er í alvörunni ekki gerð nein krafa um að það, sem þið á Alþingi látið út úr ykkur í pontu, sé satt og rétt? Þegar þú lætur frá þér frumvarp, sem hefur áhrif á þó nokkuð marga, er þá ekki lágmarkskrafa að þið hafið kannað allar hliðar og hafið réttar upplýsingar? Ekki afbakaðar og tilhæfulausar lygar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×