Innlent

Magnús Guðmundsson er látinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Magnús varð fimm sinnum Íslandsmeistari á skíðum og fimm sinnum í golfi. Hann vann til Íslandsmeistaratitils í báðum íþróttum árið 1958.
Magnús varð fimm sinnum Íslandsmeistari á skíðum og fimm sinnum í golfi. Hann vann til Íslandsmeistaratitils í báðum íþróttum árið 1958. Akureyri.net

Magnús Guðmundsson er látinn, 88 ára að aldri. Hann var einn þekktasti íþróttamaður Akureyringa. Hann lést á heimili sínu í Montana í Bandaríkjunum í gær.

Akureyri.net greinir frá andláti Magnúsar, sem varð á íþróttaferli sínum margfaldur Íslandsmeistari í golfi og á skíðum. Á seinni árum bjó Magnús í Bandaríkjunum, fyrst í Idaho-ríki en síðar í Montana.

Magnús var fæddur 30. maí 1933 á Siglufirði, en var alinn upp á Akureyri. Magnús varð fimm sinnum Íslandsmeistari á skíðum, fyrst árið 1952, þá 19 ára gamall. Árið 1955 flutti hann á til Bandaríkjanna í tvö ár. Um miðjan sjöunda áratuginn flutti hann síðan varanlega vestur um haf, þar sem hann fékkst meðal annars við skíðakennslu.

Magnúsi var margt til lista lagt, en auk þess að verða fimm sinnum Íslandsmeistari á skíðum varð hann jafn oft Íslandsmeistari í golfi. Árið 1958 varð hann Íslandsmeistari í golfi og á skíðum, þá í bruni og alpaþríkeppni.

Magnús var tvígiftur. Með fyrri eiginkonu sinni, Vicky Guðmundsson, eignaðist hann tvö börn, þau Marcus og Erica. Síðari eiginkona Magnúsar er Susy Guðmundsson, sem lifir Magnús.

Á Akureyri.net er stiklað á stóru yfir íþróttaferil Magnúsar, þar segir meðal annars um sigur hans á Íslandsmeistaramótinu í golfi árið 1964:

„Eftirminnilegasta sigurinn á Íslandsmótinu í golfi vann Magnús árið 1964 í Vestmannaeyjum þegar hann lék á 10 höggum undir pari vallarins og sigraði með fáheyrðum yfirburðum. Magnús lék á 270 höggum og vann með 25 högga mun. Næstu tveir léku á 295! Íslandsmót vannst ekki með sömu yfirburðum á ný fyrr en tæpri hálfri öld síðar; Birgir Leifur Hafþórsson lék þá á 10 höggum undir pari þegar hann varð Íslandsmeistari.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×