Erlent

Fyrr­verandi varnar­mála­ráð­herra Dan­merkur grunaður um land­ráð

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 74 ára Claus Hjort Fredriksen var varnarmálaráðherra Danmerkur á árunum 2016 til 2019.
Hinn 74 ára Claus Hjort Fredriksen var varnarmálaráðherra Danmerkur á árunum 2016 til 2019. EPA

Claus Hjort Fredriksen, fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, er grunaður af dönsku lögreglunni um að hafa brotið trúnað með því að greina fjölmiðlum frá upplýsingum sem varða við þjóðaröryggi, á þeim tíma er hann gegndi ráðherraembætti.

Þetta staðfestir hann í stuttri fréttatilkynningu sem flokkurinn Venstre birti í morgun. Verði Fredriksen fundinn sekur á yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi, en brotin falla í lögum undir kafla sem kallast „landráð“. DR segir frá málinu

Árið 2020 staðfesti Frederiksen í viðtali við Weekendavisen og fleiri fjölmiðla að leyniþjónusta danska hersins, FE, hafi unnið saman með bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni, NSA, að njósnum í gegnum ljósleiðara.

Lars Findsen, fyrrverandi forstjóri FE, er nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa sömuleiðis lekið trúnaðarupplýsingum til fjölmiðla. Hann hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í desember.

Í yfirlýsingunni segir Frederiksen að hann hafi „sem þingmaður tjáð sig um pólitískt mál“ en að hann myndi aldrei nokkurn tímann geta skaðað Danmörku eða hagsmuni ríkisins.

Hinn 74 ára Claus Hjort Fredriksen var varnarmálaráðherra Danmerkur á árunum 2016 til 2019. Hann var sömuleiðis fjármálaráðherra á árunum 2009 til 2011 og aftur frá 2015 til 2016.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×