Erlent

Andrés missir titla sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Andrés prins í herbúningi sínum.
Andrés prins í herbúningi sínum. EPA/JULIEN WARNAND

Andrés prins hefur afsalað sér titlum sínum vegna ásakana gegn honum um kynferðisbrot. Um er að ræða titla hans innan hersins og konungsfjölskyldunnar og mun hann ekki koma að opinberum viðburðum en þessi ákvörðun var tekin með samþykki Elísabetar drottningar, móður Andrésar.

Í yfirlýsingu frá konungsfjölskyldunni segir að Andrés, sem ber titilinn hertoginn af Jórvík, muni verja sig sem almennur borgari. Þá á ekki lengur að kalla prinsinn; Yðar hátign (e. Your royal highness).

Málaferli gegn Andrési standa yfir í New York en hann er sakaður um að hafa nauðgað Virginia Giuffre þrisvar sinnum þegar hún var sautján ára gömul. Hún segist hafa verið eitt af fórnarlömbum auðjöfursins Jeffreys Epstein.

Dómari í New York komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að vísa máli Giuffre gegn Andrési ekki frá dómi. Þetta þýðir að prinsinn þarf annað hvort að fylgja málinu eftir alla leið eða leita sátta við Giuffre.

Sjá einnig: Lögmaður Giuffre segir hana ekki munu sætta sig við fjárhagslega sátt

Reuters fréttaveitan segir að aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar muni taka við skyldum Andrésar.

Giuffre gerði á árum áður samkomulag við Epstein sem snerist í grófum dráttum um að hún félli frá máli gegn honum eftir að hún sakaði hann um kynferðisofbeldi og kynlífsþrælkun. Það náði til Epsteins og annarra mögulegra sakborninga.

Lögmenn Andrésar hafa reynt að fá málaferli Giuffre felld niður á grunni þessa samkomulags en það heppnaðist ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×