Innlent

Lögreglan á Suðurlandi liggur undir feldi með Facebook

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ekki hefur verið ákveðið hvort Lögreglan á Suðurlandi verði áfram á Facebook eða hvort hún yfirgefi þann vettvang.
Ekki hefur verið ákveðið hvort Lögreglan á Suðurlandi verði áfram á Facebook eða hvort hún yfirgefi þann vettvang. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eins og kunnugt er þá hefur Lögreglan á Suðurnesjum ákveðið að hætta á Facebook en á sama tíma hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákveðið að halda áfram á Facebook. En hvað ætlar Lögreglan á Suðurlandi að gera?

„Um það hefur ekki verið tekin ákvörðun. Við erum að skoða úrskurð persónuverndar en hann er, virðist mér nokkuð afgerandi um að það að óska eftir upplýsingum og ábendingum frá almenningi, í gegn um einkaskilaboð á Facebook, vegna atvika sem ýmist kunnu að varða við lög eða vörðuðu tiltekna einstaklinga sem birt er mynd af samrýmist ekki lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn.

Oddur segir að málið verði rætt á næsta fundi yfirstjórnar og niðurstöðu að vænta eftir þann fund.

„Það er alveg ljóst er að almenn upplýsingagjöf í gegn um samfélagsmiðla er mjög árangursrík en skoða þarf hvert tilvik fyrir sig í þeim efnum og einnig þarf að gæta að því að sá farvegur sem er fyrir almenning til að koma upplýsingum til lögreglu sé í samræmi við gildandi lagaumhverfi hverju sinni,“ bætir Oddur við.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×