Neytendur

Leyft að selja gamlar birgðir: „Þetta verður ekki flutt aftur til landsins“

Eiður Þór Árnason skrifar
Cocoa Puffs birgðir landsins eru nú að skornum skammti.
Cocoa Puffs birgðir landsins eru nú að skornum skammti. Vísir/Vilhelm

Hagkaup fékk nýlega heimild hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til að selja síðustu pakkana sína af Cocoa Puffs. Þeir höfðu safnað ryki í vöruhúsi eftir að tilkynnt var að ekki væri lengur heimilt að selja morgunkornið á Íslandi. Vörurnar voru fluttar til landsins síðasta sumar og hefðu að óbreyttu verið urðaðar.

„Það hefur staðið styr um túlkunaratriði, hvað er bannað í þessu og hvað ekki, og menn ekki allir sammála. Þess vegna voru þessar vörur settar á frost í haust og ekki seldar á amerískum dögum á meðan við kláruðum samtalið við heilbrigðiseftirlitið,“ segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, í samtali við Vísi.

„Þetta verður nú ekki aftur flutt inn til landsins og til að minnka matarsóun þá fengum við heimild til að selja þær birgðir sem voru komnar inn til landsins og þess vegna fór þetta núna tímabundið í sölu,“ bætir hann við. Birgðirnar séu nú við það að klárast.

Sigurður segir málið vera flókið og ekki á allra valdi að skilja um hvað málið raunverulega snúist. Líkt og Vísir greindi frá í október kom fram í bréfi sem framleiðandinn General Mills sendi íslenska heildsalanum Nathan & Olsen í mars að ný uppskrift Cocoa Puffs og Lucky Charms innihéldi náttúruleg litarefni sem væru hér óleyfileg samkvæmt gildandi reglugerðum um aukaefni á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki er tilgreint hvaða efni nákvæmlega málið snýst um og telja sumir kaupmenn ósennilegt að um raunverulegt bannefni sé að ræða.

Ósamræmi milli sveitarfélaga

„Við höfum reynt að leita eftir einhverjum upplýsingum og reynt að átta okkur á þessu og sækja hvað það er sem menn eru að segja að sé ólöglegt, því við getum ekki seð það sjálfir með okkar sérfræðingum. Þetta er í einhverjum snúningi en lokavaldið er bara hjá heilbrigðiseftirlitinu sem stendur fast á því að þetta sé svona og við það þurfum við að búa,“ segir Sigurður.

Athygli vekur að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja túlkar málið öðruvísi en eftirlitsaðilar í Reykjavík og hætti að gera athugasemd við sölu Samkaupa á Cocoa Puffs eftir að verslanakeðjan leiðrétti þýdda innihaldslýsingu sem límd var á umbúðirnar. Samkaup eru með höfuðstöðvar í Reykjanesbæ og reka meðal annars verslanir undir merkjum Nettó, Iceland og Kjörbúðarinnar.

Fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sagði í samtali við Vísi í október að þeirra sölubann byggi einfaldlega á áðurnefndri yfirlýsingu framleiðandans þar sem fram komi að ekki sé lengur heimilt að selja vöruna á Evrópska efnahagssvæðinu. Það kæmi ekki í hlut eftirlitsins að óska eftir frekari skýringum.

Ítarlega var fjallað framtíð súkkulaðimorgunkornsins á Íslandi í október.


Tengdar fréttir

ESB: Við bönnuðum ykkur ekki að borða Cocoa Puffs og Lucky Charms

Mörgum brá í brún um síðustu mánaðamót þegar þær fréttir bárust að morgunkornið Cocoa Puffs og Lucky Charms yrði brátt ófáanlegt á Íslandi. Fregnirnar vöktu mikla athygli og sátu margir aðdáendur hins vinsæla morgunkorns eftir með sárt ennið eða byrjuðu að hamstra vörurnar í stórum stíl.

Cocoa Puffs og Lucky Charms verða ekki fáanleg á Íslandi

Cocoa Puffs og Lucky Charms verða brátt ófáanleg á Íslandi ef marka má tilkynningu frá Nathan & Olsen. Þar segir að framleiðandinn General Mills hafi nýlega upplýst að ný uppskrift samræmist ekki Evrópulöggjöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×