Sport

Vann einn besta þjálfara sögunnar en var rekinn daginn eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brian Flores vann átta af níu síðustu leikjum sínum sem þjálfari Miami Dolphins í NFL-deildinni.
Brian Flores vann átta af níu síðustu leikjum sínum sem þjálfari Miami Dolphins í NFL-deildinni. AP/Wilfredo Lee

Svarti mánudagurinn stóð undir nafni í NFL-deildinni í en þrír þjálfarar deildarinnar þurftu þá að taka pokann sinn daginn eftir að deildarkeppninni lauk.

Miami Dolphins rak þjálfara sinn Brian Flores, Minnesota Vikings rak þjálfara sinn Mike Zimmer og Chicago Bears lét þjálfara sinn Matt Nagy taka pokann sinn. Vikings og Bears ráku líka framkvæmdastjóra sína Rick Spielman og Ryan Pace.

Einn þjálfari entist ekki einu sinni fram á mánudag því Denver Broncos rak Vic Fangio á sunnudeginum.

Mike Zimmer hafði verið lengst í starfi eða síðan 2014 en Minnesota Vikings hefur misst af úrslitakeppninni á þremur af síðustu fjórum árum.

Það þarf ekki að koma mikið á óvart að þeir Mike Zimmer og Matt Nagy hafi misst starfið sitt en aðra sögu er að segja af Brian Flores hjá Miami Dolphins.

Daginn áður en Flores var rekinn þá stýrði hann Miami Dolphins liðinu til 33-24 sigurs á liði New England Patriots.

Miami liðið tapaði sjö leikjum í röð fyrr á tímabilinu en endaði á að vinna átta af síðustu níu leikjum sínum.

Patriots hafði verið á góðu rólu undir stjórn Bill Belichick sem er einn allra besti þjálfari sögunnar. New England er líka á leiðinni í leik í úrslitakeppninni um næstu helgi.

Flores var áður aðstoðarmaður Bill Belichick en hefur unnið fjóra af sex leikjum sínum gegn honum.

Stephen Ross, eigandi Miami Dolphins, sendi frá sér yfirlýsingu og þar kemur fram að hans mat sé að liðið þurfi nýjan þjálfara til að ná betri árangri. „Við erum með ungan og hæfileikaríkan leikmannahóp og höfum tækifæri til að gera mun betur 2022,“ skrifaði Ross.

Brian Flores var búinn að vera þjálfari Miami liðsins í þrjú ár. Hann fékk starfið eftir að hafa hjálpað New England Patriots og Belichick að vinna fjóra meistaratitla.

Undir hans stjórn vann Miami Dolphins aðeins 5 af 16 leikjum fyrsta árið en hefur unnið 19 af 33 leikjum sínum undanfarin tvö tímabil. Liðið vann einum leik færra í ár en í fyrra og endaði í þriðja sæti síns riðils á eftir Buffalo Bills og New England Patriots.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×