Innherji

Útsvarstekjur borgarinnar jukust um 7,4 prósent milli ára

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Frá árinu 2017 hafa útsvarstekjur sveitarfélaga aukist um 29 prósent. 
Frá árinu 2017 hafa útsvarstekjur sveitarfélaga aukist um 29 prósent.  VÍSIR/VILHELM

Útsvarstekjur Reykjavíkurborgar námu 84 milljörðum króna á árinu 2021 og jukust um 7,4 prósent milli ára. Aukningin er á pari við meðalaukningu útsvarstekna sveitarfélaga í fyrra en af sex stærstu sveitarfélögunum var minnsta aukningin hjá Hafnarfjarðarbæ. Þetta má lesa úr nýjum tölum á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Greidd staðgreiðsla til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga námu 262 milljörðum króna á árinu 2021 og jukust um 7,3 prósent á milli ára. Gögnin ná aftur til ársins 2017 en síðan þá hafa útsvarstekjur aukist um 29 prósent.

Ef hvert ár er skoðað í heild sinni var enginn samdráttur í útsvarstekjum á tímabilinu en úrræði ríkisstjórnarinnar, einkum hlutabótaleiðin, sáu til þess að útsvarstekjur sveitarfélaga jukust heilt yfir á árinu 2020 þrátt fyrir efnahagsleg áhrif Covid-19.

Af sex stærstu sveitarfélögum landsins jukustu útsvarstekjur mest hjá Akureyrarkaupstað á árinu 2021 en aukningin nam tæplega 9 prósentum milli ára. Þar á eftir kemur Garðabær þar sem aukningin nam 8,5 prósentum. Minnsta aukningin, um 3,8 prósent, var hjá Hafnarfjarðarkaupstað.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á að frá árinu 1980 til 2020 hafi heildarafkoma sveitarfélaga verið neikvæð í 33 ár og jákvæð í aðeins 8 ár.

„Hér er um að ræða mikilvæga vísbendingu um að rekstur sveitarfélaga sé ekki sjálfbær til lengri tíma litið,“ sagði í umsögn sambandsins um fjárlagafrumvarpið. „Árin sem skilað hafa jákvæðri heildarafkomu fyrir sveitarfélög einkennast af óhemju mikilli þenslu í íslenskum þjóðarbúskap.“

Mörg af stærstu sveitarfélögum landsins hafa fjölgað stöðugildum verulega frá upphafi heimsfaraldursins eins og Innherji greindi frá.

Fremst í flokki er Reykjavíkurborg, sem hefur fjölgað stöðugildum um 13,5 prósent frá upphafi faraldursins. Talsmenn borgarinnar hafa gefið út að mikil fjölgun stöðugilda á stuttu tímabili hafi verið hluti af vinnumarkaðsaðgerðum sem ætlað var að viðhalda ákveðnu atvinnustigi.

Ef miðað er við fjölgun stöðugilda á hvern íbúa fylgir Hafnarfjarðarbær hins vegar fast á hæla Reykjavíkurborgar. Fjölgunin hjá Hafnarfjarðarbæ nam 9,2 prósentum samanborið við 9,7 prósent hjá borginni.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×