Innherji

Þrjú fyrirtæki með yfir 90 prósent af kolefnisspori eignasafnsins

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ólafur Páll Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins.
Ólafur Páll Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins. Landsbankinn

Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur birt ítarlegt mat á UFS-þáttum eignasafnsins en á meðal þess sem matið varpar ljósi á er að sú staðreynd að rekja má meira en 90 prósent af kolefnisspori innlenda eignasafnsins til þriggja skráðra fyrirtækja.

Ný stefna sjóðsins um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar var samþykkt í nóvember en liður í stefnumótunarvinnunni var að greina eignasafn sjóðsins betur en áður og birta ítarlegri upplýsingar um UFS-þætti. Innherja er ekki kunnugt um að annar lífeyrissjóður hafi birt svo ítarlegar upplýsingar um sjálfbærni eignasafnsins.

„Hugmyndin er að upplýsa sjóðfélaga og aðra haghafa um stöðu eignasafnsins með tilliti til UFS-þátta. En ekki síður er þetta tækifæri til að ýta við útgefendum og veita þeim aðhald. Upplýsingagjöf er mikilvægur þáttur í starfsemi lífeyrissjóða og við erum rétt að stíga fyrstu skrefin í þessari vinnu. Það er líka margt að breytast í löggjöfinni og kröfur að aukast þegar kemur að sjálfbærniupplýsingum“ segir Ólafur Páll Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins.

Sundurliðun á kolefnisspori innlenda eignasafnsins sýnir að þrjú félög; Icelandair, Brim og Marel, eru ábyrg fyrir meira en 90 prósentum, enda krefst starfsemin mikillar orkunotkunar.

Ef Eimskip, Loðnuvinnslan og Ölgerðin eru tekin með í reikninginn hækkar hlutfallið í 96 prósent. Um er að ræða losun frá starfsemi fyrirtækjanna í hlutfalli við eignarhlut Íslenska lífeyrissjóðsins í lok árs 2020.

„Þarna sjáum við, svart á hvítu, hvernig skiptingin er og þá getum við beint sjónum okkar að þeim sem skilja eftir sig stærsta sporið og séð þróunina hjá þeim og öðrum í þessum efnum,“ segir Ólafur Páll.

„Það má kannski segja að áherslan á sjálfbærni sé að þróast úr huglægum hugtökum í hlutlæga mælikvarða. Þegar við getum greint eignasafnið með þessum hætti birtist skýr mynd sem gerir okkur kleift að marka skýra stefnu.“

Þá vinnur sjóðurinn að því að greina erlenda eignasafnið með sama hætti. Um þriðjungur erlenda eignasafnsins er í sjóðum sem hafa hlotið hæstu einkunn út frá UFS-mati MSCI ESG Fund Ratings. Aðrar upplýsingar sem sjóðurinn hefur birt opinberlega er sundurliðað UFS-áhættumat fyrir bæði innlendar og erlendar eignir.

Íslenski lífeyrissjóðurinn var ekki á meðal þeirra þrettán lífeyrissjóða sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu í samstarfi við alþjóðlegu samtökin Climate Investment Coalition á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna en samkvæmt henni ætla sjóðirnir að fjárfesta fyrir um 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030.

Við viljum leggja sérstaka áherslu á upplýsingagjöf svo að sjóðfélagar geti áttað sig á stefnu og stöðu sjóðsins í þessum efnum.

„Já, það var gott framtak. Íslenski lífeyrissjóðurinn var kominn áleiðis í stefnumótunarvinnu sem við töldum rétt að klára en útilokum ekki þátttöku í þessu verkefni síðar. Það má líka benda á að Íslenski lífeyrissjóðurinn er að stórum hluta séreignarsjóður og keppir því í raun á samkeppnismarkaði,“ segir Ólafur.

„Í slíku umhverfi er mikilvægt að sjóðir fari sínar eigin leiðir og bjóði sjóðfélögum sínum upp á valkosti. Það þurfa ekki allir að gera það sama þótt markmiðin séu svipuð. Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur á liðnum árum fjárfest talsvert í erlendum sjóðum sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi og telja slíkir sjóðir nú um fimmtung af erlenda eignasafninu ,“ segir Ólafur Páll.

Er eitthvað sem þú telur að lífeyrissjóðir þurfi að vara sig á eða hafa hugfast þegar kemur að áherslum á sjálfbærnimál?

„Hlutverk lífeyrissjóða er fyrst og fremst að ávaxta eignir á hagkvæman hátt að teknu tilliti til áhættu en jafnframt er sjóðunum skylt að setja siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Mikilvægt er setja raunhæf markmið og að styðja við aðgerðir og fjárfestingar sem hafa raunveruleg áhrif til að ná fram markmiðum í loftslagsmálum og sjálfbærni,“ segir Ólafur.

„Og við viljum leggja sérstaka áherslu á upplýsingagjöf svo að sjóðfélagar geti áttað sig á stefnu og stöðu sjóðsins í þessum efnum. Jafnframt þarf að gera sér grein fyrir að þetta er margslungið verkefni. Á Íslandi hefur t.d. margt breyst til betri vegar á síðustu árum og æ fleiri útgefendur að gefa t.d. út græn skuldabréf. Það skapar aftur tækifæri fyrir fjármálamarkaðinn t.d. til vöruþróunar og eykur framboð á fjárfestingarkostum fyrir fagfjárfesta og aðra.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir ætla ekki að gefa neinn afslátt til að fylla græna kvótann

Stjórnendur hjá lífeyrissjóðunum Gildi og Stapa segja að ekki verði slakað á neinum kröfum sem sjóðirnir gera til fjárfestingakosta til þess að fylla upp í kvóta fyrir grænar fjárfestingar. Útlit er fyrir að meirihluti grænna fjárfestinga lífeyrissjóða verði í gegnum erlenda sjóði enda felst áhætta í því að mikið fjármagn elti takmarkaðan fjölda grænna fjárfestinga á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×