Innlent

Lang­flest verk­efni björgunar­sveitanna í nótt fok­tengd

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Alls voru útköll björgunarsveitanna um hundrað talsins í gærkvöldi og í nótt.
Alls voru útköll björgunarsveitanna um hundrað talsins í gærkvöldi og í nótt. Landsbjörg

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að langflest verkefni björgunarsveitanna í nótt hafi verið foktengd. Ekki hafi verið mikið um útköll á hafnarsvæðum eða tengd sjó.

Þetta segir Davíð Már í samtali við fréttastofu, en mikill stormur geisaði á suðvestanverðu landinu í gærkvöldi og í nótt. Alls sinntu björgunarsveitir um hundrað verkefnum vegna óveðursins.

Hann segir að fyrsta útkallið hafi komið um klukkan 22 í gærkvöldi. „Það kom svolítill kúfur til klukkan eitt á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum að mestu leyti. Björgunarsveitir voru svo einnig kallaðar út í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn.“

Landsbjörg

Hann segir að þetta hafi að langstærstum hluta verið foktengd verkefni. „Það voru lausamunir að fjúka. Það voru sérstaklega tilkynningar um að þakplötur væru að fjúka en um miðnætti vorum við fyrst og fremst að sjá lausamuni að fjúka – ruslatunnur, ruslaskýli, girðingar, grindverk í görðum og svo einhverjar tilkynningar um garðhús og kofum sem voru á einhverri hreyfingu og detta í sundur.“

Landsbjörg

Ekki slys á fólki

Davíð Már segir að engar tilkynningar hafi borist um slys á fólki og að veðrið hafi nú að mestu gengið niður. „Þetta er orðið rólegra. Þessi kúfur var þarna í kringum miðnætti. Það fór svo að róast á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum í á öðrum tímanum í nótt. Um klukkan fjögur í nótt voru flestir björgunarsveitarmenn komnir í hvíld.“

Landsbjörg

Hann segir ennfremur að hann geti ekki séð að björgunarsveitir hafi fengið mikið af verkefnum eða tilkynningum um tjón í grennd við sjó. „En ég veit að hópar fóru reglulega hring um höfnina í Vestmannaeyjum, Suðurnesjum og hérna í borginni. En ég gat ekki séð að það hafi verið mikið af afgerandi verkefnum tengt höfnum eða sjó.“

Landsbjörg


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×