Innlent

Björgunar­sveitir kallaðar út víða á Norðurlandi eystra

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Björgunarsveitir á norðausturhluta landsins höfðu í nógu að snúast í dag.
Björgunarsveitir á norðausturhluta landsins höfðu í nógu að snúast í dag. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir á Norðurlandi eystra hafa haft þó nokkuð að gera í dag, vegna mikillar ofankomu. Veður hefur verið nokkuð slæmt á köflum í landshlutanum í dag og björgunarsveitum borist nokkur útköll.

Um klukkan eitt í dag aðstoðaði björgunarsveitarfólk á Siglufirði ökumenn innanbæjar vegna ófærðar, en mjög snjóþungt var í bænum og ökumenn margir hverjir í vandræðum. Á svipuðum tíma fór hjálparsveit úr Reykjadal upp á Laxárdalsheiði og aðstoðaði ökumann á straumlausum bíl. Honum var gefið start og fylgt niður af heiðinni, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu.

„Nú seinni partinn voru björgunarsveitir aftur kallaðar út, þá á Akureyri, Mývatni og Vopnafirði. Loka þurfti þjóðveginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi og fyldi björgunarsveitarfólk nokkrum bílum niður um leið og veginum var lokað. Björgunarsveit á Vopnafirði fór til aðstoðar ökumanni á straumlausum bíl og nú standa yfir aðgerðir hjá björgunarsveit frá Akureyri innst í Öxnardal. Þar voru nokkrir ökumenn í vanda vegna færðar og að minnsta kosti einn bíll komin utan vegar. Snómoksturstæki eru á staðnum en sterkir vindstrengir eru fyrir innan bæinn Gloppu rétt áður en haldið er upp á Öxnadalsheiði,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×