Innherji

Fjöldi leigjenda flutti úr landi en efnahagsbati mun snúa þróuninni við

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gauti segir að leigumarkaðinn á Íslandi sé orðinn líkari því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. 
Gauti segir að leigumarkaðinn á Íslandi sé orðinn líkari því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum.  Aðsend mynd

Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimstaden á Íslandi, segir að síðasta vor hafi talsverður fjöldi leigjenda flutt af landi brott og yngra fólk hafi flutt aftur í foreldrahús. Hann býst við að þróunin snúist við á næsta ári í takt við aukin umsvif í hagkerfinu. 

Hvernig var rekstrarumhverfið á árinu 2021?

„Rekstrarumhverfið árið 2021 einkenndist af óvissu hjá okkur líkt og flestum fyrirtækjum á Íslandi, sérstaklega fyrri hluta ársins þegar Covid hafði hvað mest bein og óbein áhrif á samfélagið. Við fórum þá leið að vinna sérstaklega með leigjendum sem urðu fyrir tekjutapi vegna Covid og áttu fyrir vikið erfitt með að standa í skilum. Sem betur fer þurftu færri að nýta sér það úrræði en við bjuggumst við og núna á síðari hluta ársins höfum við séð rekstrarbata í hverjum mánuði. Stærsti kostnaðarliður okkar er alla jafna vaxtakostnaður og hafði það mikið að segja fyrir okkur að vextir fyrri hluta ársins voru tiltölulega lágir.“

Helstu áskoranir ársins voru að aðlaga starfsemina stöðugt með tilliti til sóttvarnatakmarkanna.

Hvað stóð upp úr?

„Það sem stóð upp úr rekstrinum á árinu var sú umbreyting sem hefur orðið á ásýnd og starfsemi félagsins undir merkjum Heimstaden. Nú er fyrsta ári Heimstaden á Íslandi að ljúka og höfum við fengið frábærar móttökur hjá okkar viðskiptavinum. Það er greinilegt að þau gildi sem Heimstaden stendur fyrir, Share, Dare og Care, og okkar framtíðarsýn um „Vinaleg heimili“ falla í kramið á íslenskum leigumarkaði. Lengi hefur verið kallað eftir því að leigumarkaðurinn á Íslandi yrði líkari því sem gerist á Norðurlöndum og er það nú orðið að veruleika með tilkomu okkar. Við mælum aukna ánægju meðal viðskiptavina okkar og að leigjendur upplifa aukið öryggi á leigumarkaði.“

Hverjar voru helstu áskoranirnar?

„Helstu áskoranir ársins voru að aðlaga starfsemina stöðugt með tilliti til sóttvarnatakmarkanna. Á tímabili lokuðum við skrifstofunni og gátum því ekki veitt okkar viðskiptavinum eins góða þjónustu og við hefðum viljað. Síðasta vor flutti talsverður fjöldi leigjenda af landi brott og yngra fólk fór aftur í foreldrahús samhliða auknu atvinnuleysi. Vannýting eignasafnsins jókst þess vegna.“

Hvernig lítur næsta ár út frá ykkar bæjardyrum séð?

„Næsta ár lítur vel út. Við gerum ráð fyrir að hjól efnahagslífsins muni snúast örar og að það feli í sér aukið streymi vinnuafls til landsins. Við teljum líklegt að yngra fólk fari í meira mæli út á leigumarkaðinn og fyrir vikið aukist eftirspurn eftir íbúðum okkar enn frekar. Markmið okkar er einfalt, við viljum vera fyrsti valkostur þeirra sem kjósa að vera á leigumarkaði og leggjum okkur fram við að skapa vinaleg heimili.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×