Handbolti

Ein af hetjunum hans Þóris gafst ekki upp þrátt fyrir tíu hnéaðgerðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk stendur hér fremst þegar norsku stelpurnar fagna heimsmeistaratitlinum.
Nora Mörk stendur hér fremst þegar norsku stelpurnar fagna heimsmeistaratitlinum. AP/Joan Monfort

Það voru örugglega margir búnir að afskrifa norska kvennalandsliðið þegar liðið var komið sex mörkum undir í fyrri hálfleiknum í úrslitaleik heimsmeistaramótsins á móti Frökkum.

Norsku stelpurnar gáfust hins vegar ekki upp, snéru leiknum við á augabragði í seinni hálfleiknum og unnu að lokum öruggan sigur.

Ein af hetjum norska liðsins var hægri skyttan Nora Mörk. Hún var ein af þeim sem töpuðu úrslitaleik HM 2017 á móti Frökkum og var ein af þeim sem leiddi endurkomu liðsins í seinni hálfleiknum um helgina.

Frá því í úrslitaleiknum 2017 hafði Nora gengið í gegnum mikið mótlæti og meðal annars þurft að gangast undir margar hnéaðgerðir.

Aðgerð á liðþófa þýddi að hún missti af EM 2018 og hún sleit síðan krossband árið eftir og missti þar með af HM 2019. Hún hjálpaði Noregi að verða Evrópumeistari 2020 en hefur alls þurft að fara í tíu hnéaðgerðir á ferlinum.

Nora óttaðist enn ein hnémeiðslin þegar hún haltraði af velli í Meistaradeildarleik en slapp sem betur fer við alvarleg meiðsli.

Á árinu 2021 hefur hún hjálpað Vipers Kristiansand að vinna Meistaradeildina, unnið brons á Ólympíuleikunum og nú gull á heimsmeistaramótinu á sunnudaginn.

„Ég er virkilega, virkilega ánægð, svo ánægð. Ég kann svo sannarlega að meta þetta. Ég þakka fyrir að hafa ekki gefist upp. Þetta eru verðlaun fyrir það sem ég hef lagt á mig og þetta er rosalega gaman,“ sagði Nora Mörk við Verdens Gang.

Mörk varð markahæsti leikmaður norska liðsins á HM með 43 mörk og einnig sú stoðsendingahæsta í liðinu með 44 stoðsendingar. Hún kom því með beinum hætti að 87 mörkum norska liðsins. Hún skoraði fimm mörk og gaf sex stoðsendingar í úrslitaleiknum.

Nora segist hafa haldið ró sinni þrátt fyrir að norska liðið hafi verið mikið undir í fyrri hálfleiknum.

„Ég var í raun bara nokkuð róleg. Ég hugsaði að það væri aðeins við sem gætum gert eitthvað í þessu. Við urðum bara að halda áfram að berjast og ná þeim. Okkur tókst það og svo spiluðum við frábæran sóknarleik í seinni hálfleiknum. Þetta var leikur fyrir sögubækurnar,“ sagði Mörk.

Er þetta magnaðasta endurkoma hennar á ferlinum í svona stórum leik.

„Já án vafa. Ég var samt svo róleg. Það var engin pirringur eða reiði. Ég var svo fullkomlega yfirveguð. Ekki að þetta gengi örugglega upp heldur að við myndum gera það besta sem við gætum,“ sagði Mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×