Handbolti

For­seti Al­þjóða­hand­bolta­sam­bandsins gerði sig að fífli í ræðu eftir úr­slita­leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Norsku stelpurnar fagna hér sigri og létu fáránlega ræðu forsetans ekki trufla sig en þær frönsku urðu enn svekktari eftir að forseti IHF mundi ekki einu sinn eftir því að þær höfðu spilað úrslitaleikinn.
Norsku stelpurnar fagna hér sigri og létu fáránlega ræðu forsetans ekki trufla sig en þær frönsku urðu enn svekktari eftir að forseti IHF mundi ekki einu sinn eftir því að þær höfðu spilað úrslitaleikinn. Samsett/EPA-EFE/Enric Fontcuberta

Norðmenn tryggðu sér heimsmeistaratitilinn í handbolta kvenna í gær eftir sigur á Frakklandi í úrslitaleiknum. Ræða eftir leik hneykslaði marga.

Eftir leikinn hélt Hassan Moustafa, forseti Alþjóðahandboltasambandsins, nefnilega ansi skrautlega ræðu.

Instagram/Sportbladet

Þar sem Noregur og Frakkland voru að spila til úrslita þá ætti það ekki að fara fram hjá neinum hvaða lið vann gullið og hvaða lið varð í öðru sæti. Norsku stelpurnar fögnuðu og þær frönsku gengi niðurlútar af velli.

Moustafa tókst hins vegar að klúðra því í þessari fáránlegu ræðu sinni.

„Ég lýsi því yfir að Noregur er heimsmeistari,“ sagði Hassan Moustafa og tók sér smá hlé áður en hann hélt áfram:

„og Danmörk ... og Danmörk varð í öðru sæti. Og Frakkland varð í þriðja sæti. Hamingjuóskir til liðanna,“ sagði Moustafa.

Dönsku stelpurnar höfðu fyrr um daginn tryggt sér bronsverðlaunin með sigri á Spáni í leiknum um þriðja sætið.

Fólkið í Granollers púaði á forsetann sem var að fara með fáránlegar fleipur og gera sig að fífli þrátt fyrir að vera að greinilega að lesa upplýsingarnar af miða. Það er ekki nóg með að hann gerði þessi mistök heldur sýndi hann bestu handboltakonum heims algjört virðingaleysi með þessu bulli sínu.

Moustafa skildi ekkert í viðbrögðum áhorfenda og heldur ekki þegar aðstoðarmaður hans reyndi að útskýra fyrir honum að Frakkland hafði í raun lent í öðru sætinu.

„Annað sætið til Danmerkur. Ég skil ekki,“ sagði Moustafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×