Handbolti

Leikmenn hverfa á miðju HM kvenna í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaghayegh Bapiri í leik með Íran á HM en hún er nú horfin.
Shaghayegh Bapiri í leik með Íran á HM en hún er nú horfin. IHF

Íranska landsliðið er að keppa á HM kvenna í handbolta sem nú stendur yfir á Spáni. Það lítur út fyrir það að það munu ekki allir leikmenn liðsins skila sér heim af mótinu. Þá sögu geta fleiri lönd sagt.

Þetta er mjög sérstakt heimsmeistaramót hjá konunum því ákveðið var að fjölga liðum á mótinu og fyrir vikið hafa sumar þjóðir verið að stíga sín fyrstu skref á móti sem þessu.

Það hefur ekki aðeins þýtt að bestu liðin hafa unnið mjög marga risasigra heldur virðist vera sem svo að leikmenn sumra þjóða hafi ákveðið að nýta sér tækifærið til að komast til Evrópu.

Fyrst hurfu fjórir leikmenn kamerúnska landsliðsins og nú hefur einn leikmaður íranska landsliðsins einnig gufað upp.

Leikmennirnir frá Kamerún skiluðu sér aldrei í kórónuveirupróf fyrir leik á móti Angóla og hafa ekki sést síðan. El País sagði frá því að síðast sást til leikmannanna fjögurra stíga upp í leigubíl fyrir framan liðshótelið.

Nú síðast segir TV2 Sport í Noregi frá því að íranska handboltakonan Shaghayegh Bapiri sé horfin. Bapiri er þrítug og spilar með Eshtad Sazeh Mashhad í heimalandinu eins og flestir leikmenn landsliðsins.

Í gær uppgötvaðist það fyrst að Shaghayegh væri horfin en hún er reyndasti leikmaður íranska liðsins með 285 landsleiki fyrir heimsmeistaramótið.

Alþjóða handboltasambandið og spænskir mótshaldarar hafa staðfest það að enginn viti hvar Shaghayegh sé niðurkomin. Þeir segja lítið geta gert ef leikmaður sé staðráðin í að koma sér í burtu enda sé liðshótelið ekki eins og fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×