Skoðun

Hressandi við­horf Hildar

Kristján Þorsteinsson skrifar

Nú kann ég að hljóma fjörgamall í eyrum sumra, en staðreyndin er sú að ég hef nú staðið í veitingarekstri í Reykjavík í rúma þrjá áratugi. Í dag rek ég einn veitingastað í miðborg Reykjavíkur, og annan í Hafnarfirði.

Stóra myndin í Reykjavík er sú að ásýnd borgarinnar hefur að mörgu leyti stórbatnað. Með komu ferðamanna varð bærinn okkar að borg og ekki er hægt að líta framhjá framlagi núverandi borgarstjóra í þeim efnum. Það er einfaldlega skemmtilegra að búa í Reykjavík nú en það var fyrir nokkrum árum. Mannlífið fjölbreyttara og valkostirnir fleiri.

Hitt er svo annað mál að rekstrarumhverfi í borginni hefur snarversnað. Borgarstjóri virðist gleyma því að til þess að standa undir skemmtilegheitunum þarf að vera raunhæft að reka fyrirtæki svo vel sé.

Upplifunin í dag er því miður sú að svo sé ekki, borgin virðist rekin með vinstri hendinni, og treyst á að rekstraraðilar og borgarbúar stoppi í götin með fullkreistu útsvari og þöndum fasteignagjöldum. Ofan á það bætast svo kröfur frá heilbrigðis- og skipulagsyfirvöldum sem fremur virðast ætlaðar skurðstofum en veitingastöðum. Hver þarf annars níu vaska, og af hverju níu, en ekki sjö?

Þrátt fyrir þessa stöðu hefur alvarlega vantað annan valkost í borginni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðið fram sundurleita sveit fólks sem ekki virðist hafa aðrar áherslur en að vera á móti öllu því sem kemur frá Degi og hans fólki. Aukaatriði fá mest vægi í umræðunni. Ekkert málefnalegt og ekkert uppbyggilegt. Síðast þegar ég vissi var engin stjórnmálastefna kennd við að vera fúll á móti.

Þess vegna hefur verið frískandi að fá heyra nýja rödd í borgarmálunum. Hildur Björnsdóttir hefur komið fram með skýra sýn og ekki nema von að hún fái öflugan meðbyr meðal atvinnurekenda í borginni, nú síðast frá Svövu í 17 sem hefur meiri reynslu en flestir af því að reka fyrirtæki í borginni.

Staðreyndin er nefnilega sú að það er kominn tími til að Sjálfstæðismenn taki völdin í borginni. Nú loksins með frambjóðanda sem sætt getur ólík sjónarmið, og látið af fúll á móti pólítík sem skilað hefur flokknum akkúrat engu. Áfram Hildur.

Höfundur er veitingamaður í miðborginni til fjölda ára.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×